Upplýsingar um blóðleysi?

Spurning:
Mig langar að fá smáupplýsingar varðandi járn- og blóðskort. Ég hef verið að berjast við blóðleysi frá unga aldri. Nú síðast var járngildið hjá mér komið niður í 13 en var þar áður 44 og blóðgildið rétt í kringum 90. Hvað þýða þessar tölur og hvaða áhrif hafa þessi lágu gildi á almenna líðan? Ég er alltaf þreytt og algjörlega orkulaus – rétt held haus í vinnunni. Hvað er helst til ráða – ég þoli ekki að taka inn járntöflur.

Svar:

Járnskortur er algengasta orsök blóðleysis en járn er mikilvægt til framleiðslu rauðra blóðkorna í beinmerg. Orsakir járnskorts geta verið ónógt járn í fæðu, lítið frásog járns frá þörmum, miklar tíðablæðingar eða blóðtap frá meltingarvegi. Einkenni sem koma fram við járnskortsblóðleysi er einkum slappleiki, þreyta, svimi og jafnvel mæði. Eðlilegt er að blóðgildi hjá konum sé 120 eða meira og er það talsvert lækkað hjá þér og líklegt að það geti orsakað þreytu og orkuleysi. Járngildin sem þú nefnir eru hins vegar innan eðlilegra marka en mikill breytileiki getur verið í járnmælingum og oft er betra að mæla járnbirgðir (ferritín). Meðferð við járnskorti er inntaka járns og einnig þarf að taka inn C-vítamín til að auka frásog járnsins. Ef þú þolir ekki járn til inntöku er mögulegt að fá járn í sprautuformi í vöðva eða æð. Mikilvægt er að þú ræðir þetta við þinn lækni.

Kveðja,
Einar Eyjólfsson, læknir