Upplýsingar um ensímskort?

Spurning:
Mig langar að forvitnast aðeins um ensímskort, MBL eða Mannose-Binding Lectin. Ég var greind með þennan ensímskort fyrir um ári síðan og ráðlagt að forðast í framhaldinu allan sykur í hvaða formi sem er. Ég hef verið að leita að upplýsingum um MBL á netinu en ekki fundið mikið sem segir til um lífið eftir greiningu. Er þetta eitthvað sem þið kannist við, ef ekki hvert gæti ég leitað til að fá frekari upplýsingar. Ég finn mikinn mun þegar ég er ekki að borða sykur en þetta er stundum ekki einfalt því sykur í einhverri mynd er svo víða. Sykurinn má nefnilega ekki vera neinn (og þá meina ég engan sykur, ekki ávexti o.s.frv.). Ég hef stundum nefnt þetta við heimilislækna sem ég hef farið til (bý á stað þar sem þeir rúlla bara í gegn á nokkurra vikna fresti) og sumir vilja gera lítið úr þessu og aðrir vita nánast ekkert um þetta. Getið þið gefið mér einhver svör? Mig langar svo að vita meira. Ein sykurlaus!

Svar:
Komdu sæl.
Mannose-binding lectin er framleitt í lifrinni og skortur á því hefur neikvæð áhrif á ónæmiskerfið. Mannose eða mannósi er einsykrungur sem breytist í alkóhólsykrung sem kallast mannítól við afoxun. Þar sem þetta er sykuralkóhól get ég ekki séð að neysla hefðbundinna kolvetna hafi nokkur áhrif þarna á. Þess vegna get ég ekki fundið nein rök sem mæla með útilokun á kolvetnaríkum mat eins og kornmeti og ávöxtum. Og hafa má hugfast að kolvetni er það orkuefni sem mannslíkaminn þarf mest á að halda og það að skera kolvetnaneyslu við nögl þykir ekki hollt og gott.  Ég hafði samband við kollega mína á Næringarstofu Landspítalans og könnuðust þeir ekki við þennan ,,sjúkdóm". Læt hér fylgja ágætis fræðigreinar sem fjalla um þetta efni en þar er hvergi mælt með kolvetnaniðurskurði af neinu tagi.
Að lokum: Mér þætti gaman að vita hver það var sem gaf þér þær varhugaverðu upplýsingar um að þú mættir ekki borða sykur (kolvetni) í neinu formi?

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur