Upplýsingar um ,,fjölvefjagigt

Spurning:
Mig langar að vita hvort að það séu  til einhverjar opinberar skýrslur eða gögn um rannsóknir og meðferðarúrræði um fjölvefjagigt hér á Íslandi og hvar þá væri hægt að nálgast þau? Það virðist vera svo mismunandi meðhöndlun á fjölvefjagigtarsjúklingum milli landa, t.d. virðast sterar vera mikið notaðir hér á landi,með góðum árangri, en sú meðferð þekkist kannski ekki mikið annarstaðar og þá af hverju? Eru  læknar ekki alltaf á ráðstefnum til að bera saman bækur sínar? Til að mynda á Spáni virðist sem þeir kannist ekkert við að notaðir séu sterar við fjölvefjagigt.Vonast til að fá einhver svör, kveðja ASvar: 

Það er ekki alveg ljóst á spurningu þinni hvorn tveggja sjúkdóma þú ert að spyrjast fyrir um.

Annarsvegar er vefjagigt (fibromialgia). Við þeim sjúkdómi eru sterar mjög sjaldan notaðir og telja flestir gigtarséfræðingar að það skili ekki árangri þar sem liðbólgur fylgja ekki þessum sjúkdómi.  Einstöku sérfræðingur gefur stera í háum skömmtum í æð til að minnka vöðvabólgur og festumein, mest til að minnka einkenni og auðvelda viðkomandi að sinna þjálfun og brjóta upp vítahring verkja. Um þetta hefur lítið sem ekkert verið skrifað og vafi á að hægt sé að finna rannsóknir þessu að lútandi.

Hinsvegar er fjölvöðvagikt (Polymylagia Rheumatica). Þarna er á ferðinni sjúkdómur sem einkennist af verkjum og slappleika í stórum vöðvum td. upphandleggjum og lærvöðvum. Blóðmynd sýnir oftast hátt langtímabólgugildi í blóði (sökk) og oftast einnig blóðleysi. Þessi sjúkdómur kemur oftast ekki fram fyrr en vel yfir miðjan aldur og er mun algengari hjá konum en körlum. Meðferðin við þessum sjúkdómi er undantekningarlítið sterar (predisolon eða annað samheitalyf) eins hefur lyf af flokki krabbameinslyfja Methotrexate verið notað samhliða sterum. Meðferðin hefst vanalegast í háum skömmtum af sterum sem eru svo minnkaðir hratt fyrstu mánuðina niður í lágmarksskammt (5mg) sem getur varað í fleiri mánuði jafnvel einhver ár. 

Það er mjög ólíklegt að sérfræðingar í ónæmis og gigtarsjúkdómum hvar sem er í heiminum kannist ekki við þessa meðferð við fjölvöðvagigt og það ætti að vera aðgengi að umfjöllun um þetta efni á netinu undir leitarorðinu POLYMYALGIA.  Það er ekki til mikið lesefni um þennan sjúkdóm þ.e. fjölvöðvagigtina á íslensku en í nýjasta blaði Gigtarfélagsins, Gigtinni, er grein um fjölvöðvagigt og svo er hægt að nálgast einhverja umfjöllun á doktor.is og hi.is.

 

 

Ef þig vantar meiri upplýsingar sendu okkur endilega frekari fyrirspurn.

 

 

Starfsfólk

Gigtarlínu Gigtarfélags Íslands