Upplýsingar um lyfið Strattera?

Spurning:
Óskað er eftir upplýsingum varðandi lyfið Strattera, s.s. aukaverkanir og hvort nauðsynlegt sé að barni sem er gefið lyfið, sé læknisskoðað fyrir og eftir að notkun hefst (vegna hugsanlegra aukaverkana á hjartslátt og blóðþrýsting)?

Svar:
Atómoxetín eða Strattera eins og sérlyfið frá bandaríska lyfjafyritækinu Eli Lilly heitir, hefur verið á markaði í Bandaríkjunum í um eitt ár. Þetta nýja lyf hefur alla vega þann kost að vera ekki eins örvandi og þau sem fyrir eru á markaði við athyglisbresti og ofvirkni og þar af leiðandi er ávanahætta ekki talin af þessu lyfi. Atómoxetín er talið hindra endurupptöku noradrenalíns í á taugamótum og valda þannig aukningu á verkun þess, meðan metýlfenídat (Ritalin, Concerta) er talið hafa fyrst og frmst áhrif á dópamínvirkni og er mjög örvandi. Helstu aukaverkanir lyfsins eru meltingartruflanir, ógleði, uppköst, þreyta, svimi, minnkuð matarlyst og geðsveiflur. Blóðþrýstingur getur einnig hækkað við notkun lyfsins og því þarf að fylgjast með honum meðan á töku lyfsins stendur. Einnig þarf að fylgjast með vexti barna sem taka lyfið þar sem rannsóknir benda til að dregið geti lítillega úr honum.Um er að ræða nýtt lyf þannig að langtíma áhrif þess á börn og fullorðna eru ekki þekkt að fullu. Ástæða er til að meta kosti og galla lyfjagjafar með tilliti til hvers einstaklings og gefa það eingöngu eftir nákvæma sjúkdómsgreiningu hjá sérfræðingi. Ef ákveðið er að gefa sjúklingi lyfið er einnig full ástæða til að fylgjast vel með honum eins og á við um öll lyf og einkum þegar um ný lyf sem takmörkuð reynsla er af notkun. Atómoxetín er ekki komið á markað í Evrópu ennþá og þar af leiðandi ekki hér á landi. Því eru upplýsingar um það af skornum skammti nema frá Bandaríkjunum. Reynsla af notkun þess er því lítil ennþá og næstum hverfandi hér á landi.Eins og á við flest okkar hugðarefni er gífurlegt magn upplýsinga um þetta lyf sem önnur að hafa af internetinu. Mér sýnist eftir stutta athugun að heimasíða framleiðandans www.strattera.com sé með góðar og faglegar upplýsingar. Það á við um lyf sem ekki hefur fengið markaðsleyfi á Íslandi að í sumum tilvikum getur læknir fengið sérstaka undanþágu frá Lyfjastofnun til að láta flytja það inn fyrir ákveðna sjúklinga. Þetta er aðeins gert ef sérfræðingar Lyfjastofnunar telja lyfið gagnist viðkomandi sjúklingi umfram þau lyf sem fyrir eru á markaði hér og öryggiskröfum sé fullnægt. Lyfjagjöfin er þá algerlega á ábyrgð viðkomandi læknis. Sérfræðingar Tryggingastofnunar ríkisins ákveða í hverju tilviki hvort lyfið verði niðurgreitt. Við þeirra mat er stuðst við ýmsa þætti sem þeir geta einir svarað fyrir. Fyrst og fremst hygg ég þó að gagnsemi og öryggi lyfsins umfram þau lyf sem eru á markaði sé það sem mest tillit er tekið til við þeirra mat. Einnig spilar kostnaður væntanlega þar einhverja rullu.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur