Upplýsingar um Pericarditis (Gollurshúsbólgu)

Spurning:

Ágætu hjartalæknar.

Getið þið upplýst mig um pericarditis, heitir það ekki gollurshúsbólga á íslensku? Hver er tíðni, einkenni, áhættuþætti, afleiðingar, meðferð, o.s.frv. Ég hef leitað en finn ekki.

Með fyrirfram þakklæti og kveðju.

Svar:

Pericarditis nefnist gollurshússbólga á íslensku. Eins og nafnið gefur til kynna er hér um að ræða bólgu í gollurshúsinu, bandvefshulstri sem liggur utan um hjartað. Orsakir geta verið fjölmargar, t.d. veirusýking og kallast þá einnig hvotsótt, bakteríusýking, sveppasýking (sjaldgæft), sjálfsofnæmissjúkdómur t.d. rauðir úlfar og geislaáverki. Gollurshússbólga getur verið fylgifiskur kransæðastíflu eða hjartaaðgerðar. Helstu einkenni eru brjóstverkur sem lýsir sér gjarnan eins og tak, þ.e. versnar við innöndun eða hósta, og er oft verstur þegar sjúklingurinn liggur flatur þannig að hann vill gjarnan sitja uppi og halla sér fram á við til að draga úr verknum. Við skoðun heyrist stundum núningshljóð sem fylgir hjartslættinum og er mjög einkennandi fyrir þetta ástand. Í alvarlegum tilfellum sem eru sem betur fer sjaldgæf getur safnast svo mikill vökvi í gollurshúsið að hætta stafar af. Truflast þá flæði blóðs inn í hjartað og blóðþrýstingur fellur. Greining á þessum sjúkdómi byggist á sjúkrasögu og skoðun og oft eru hjartaafrit, hjartaómun og tölvusneiðmynd af hjarta gagnleg. Meðferð fer eftir orsökum, t.d. sýklalyf við gollurshússbólgu af völdum bakteríusýkingar en bólgueyðandi lyf við veirusýkingu eða sjálfsofnæmisbólgu. Þótt sjúkdómurinn geti verið alvarlegur, einkum vegna vökvasöfnunar, er hann oftast vægur og hættulaus.

Með kveðju,
Guðmundur Þorgeirsson, hjartalæknir.

Situr í stjórn Hjartaverndar.