Upplýsingar um Zoloft

Spurning:

Halló Ég er með eina spurningu sem hljóðar svo:
Ég tók inn lyfið Zoloft í tvo mánuði og hætti þá og í tvær vikur gekk ég um með þvílíkan svima að ég hafði alltaf á tilfinningunni að það væri að fara að líða yfir mig. Ég hætti að taka inn lyfið því að mér fannst það ekkert virka og það var svo dýrt eða mér fannst, og finnst enn, að það borgi sig ekkert að taka inn eitthvert rándýrt lyf sem virkar ekkert. En málið var að mér var ráðlagt að hefja aftur töku á lyfinu nú í haust til að fyrirbyggja endurupptöku (en málið er að það er ekki um neina endurupptöku að ræða þar sem einkennin hafa aldrei horfið). Er þá eitthvert annað lyf sem gæti virkað betur eða er bara best að láta þetta eiga sig? Ég er líka hrædd um að ef ég byrji aftur á lyfinu að þá fái ég bara aftur þennan svima sem er ekki skemmtilegt. Ég er bara ekki alveg viss um hvað ég eigi að gera.

Með fyrirfram þökk, ein í vanda

P.s. Ef maður hefur lyfjaofnæmi er þá mælst til þess að maður gangi með armband eða eitthvað þvíumlíkt á sér?

Svar:

Það er vissulega ekki gott að hafa mikinn svima. Það getur verið að eitthvert annað skylt lyf geti hentað þér betur. Það eru til mörg lyf í þessum flokki lyfja, sérhæfðir serótónin endurupptöku hemlar. Ef einkennin sem þú hefur (og fórst á lyfjameðferð útaf) eru að plaga þig þá er ráðlegt að leita nýrra leiða í lyfjagjöf. Zoloft inniheldur virka efnið sertralín en önnur efni sem eru sérhæfðir serótónín endurupptöku hemlar eru paroxetín, cítalópram og flúoxetín. Þessi lyf eru til undir mismunandi sérlyfjaheitum sem eru mismunandi í bæði virkni og verðum. Þegar hætt er á lyfi sem hefur stuttan helmingunartíma eins og t.d. Zoloft, þá getur verið gott að minnka skammta smám saman, sérstaklega ef um stóra skammta er að ræða. Þannig minnka líkur á fráhvarfseinkennum.

Ég man eftir því að seld voru svokölluð SOS armbönd og hálsmen fyrir um 15 árum (kannski enn). Í þeim var miði sem skráðar voru upplýsingar um viðkomandi. Undir venjulegum kringumstæðum er kannski ekki þörf á slíku en þetta getur verið nauðsynlegt og bjargað mannslífum þegar komið er að meðvitundarlausum einstaklingum sem þarf að gefa einhverskonar meðferð. Þannig að þeir sem eru með lyfjaofnæmi, blæðarar og fleiri ættu að hafa slíkar upplýsingar á sér ef þeir vilja tryggja aðgengi að þessum upplýsingum, jafnvel við meðvitundarleysi. Gott er að hafa líka símanúmer hjá foreldrum og/eða maka svo hægt sé að láta vita og nálgast meiri upplýsingar.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur