Vaktavinna og matmálstímar?

Spurning:
Halló!
Ég er 25 ára og vinn vaktavinnu, 12 tíma næturvaktir 18-6, er á fullu í íþróttum og einnig stundum með aukavinnu á daginn. Ég er í mestu vandræðum með að hagræða matartímum, nú er sagt að það sé ekki gott að borða seint á daginn, hvað á maður að gera ef maður er sofandi allan daginn og vakir alla nóttina? Suma daga næ ég ekki nema ca. 3 tíma svefni og svo aðra sef ég allt uppí 14 tíma, oft er það þannig að ég borða bara eina máltíð yfir daginn og ég veit að það er ekki gott fyrir líkamann! Sérstaklega ef maður æfir tvisvar á dag. Ef ég lýsi venjulegum degi hjá mer, þá er ég búinn í vinnunni 6 og fer þá í ræktina til ca hálf 8 og fer þá að sofa, vakna aftur um 14:00 og fer á æfingu 16:00 og svo að vinna aftur kl. 18! Á ég að drekka prótein sjeika eftir æfingar þó svo að ég sé að fara að sofa eða hvað get ég gert til að ná að fá réttan skammt af bætiefnum yfir daginn? Vona að einhver geti leiðbeint mér. Með fyrirfram þökk!

Svar:
Komdu sæl.

 

Þó að fólk vinni vaktavinnu á ekki að vera neitt vandamál að temja sér reglubundnar, heilbrigðar neysluvenjur. Það er rétt hjá þér að það að borða eina máltíð á dag er ekki gott og alls ekki mannslíkamanum bjóðandi til lengri tíma. Það er góð þumalputtaregla að fá sér eitthvað í svanginn á þriggja til fjögurra tíma fresti á meðan á vöku stendur.

 

Dæmi um hvernig eðlilegt neyslumunstur gæti litið út hjá þér þegar að þú vinnur ,,næturvinnu”:

 

Ef við gefurm okkur að þú vaknir kl. 14:00 þá ætti ,,morgunverðarins” að vera neytt innan klukkutíma og síðan ættirðu að fá þér í svanginn reglubundið (þriggja/fjögurra klst. fresti). Ef þú ákveður að æfa fyrir svefninn eins og þú tekur dæmi um í fyrirspurn þinni þá ættirðu endilega að fá þér einhverja hressingu fyrir svefninn. Kolvetna-/próteinsjeik gæti þá orðið fyrir valinu en þó frekar hefðbundinn matur eins og samloka, skyr, ávaxtasafi, banani – svo einhver dæmi séu tekin.

 

 

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur.