Vandamál í uppeldi 5 ára dóttur

Spurning:
Ég á við stóran vanda að stríða í uppeldi á 5 ára dóttur minni. Það sem ég held að vandamálið sé er að hún sýnir okkur foreldrum sínum enga virðingu og við erum föst í vítahring sem við vitum ekki hvernig við eigum að komast út úr.

Hún hefur mikið skap en er samt sem áður afar ljúf. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu, en get komið með dæmi sem lýsir ágætlega því sem við eigum í erfiðleikum með. Í gær komum við heim úr búðinni með m.a. popp poka. Hún hjálpaði okkur að bera inn og allt var búið að vera í sómanum, og m.a. hélt hún á þessu poppi. Hún spurði svo þegar hún kom inn hvort hún mætti fá popp en við sögðum nei af því það væri að koma matur en hún mætti fá eftir matinn. Þá byrjar hún að suða og við reynum að segja ákveðið en ekki með neinum æsingi nei, að hún mætti það ekki. Á meðan hún suðar opnar hún pokann og byrjar að fá sér, á meðan vorum við búin að segja nei ca 5-10 sinnum. Henni var alveg sama um það sem við sögðum. Þá urðum við reið og tókum af henni pokann og skömmuðum hana. Þá fór hún að hlæja, sem hún gerir í hvert skipti sem við skömmum hana.

Oftast endar þetta ferli svo allt í háalofti þar sem við erum farin að öskra á hana og t.d. segja henni að fara inn í herbergi. Þá fer hún að gráta og segist lofa að vera góð og fer ekki inn i herbergi. Ef við förum með hana þangað kemur hún strax aftur fram, labbar hreinlega á eftir okkur út aftur. Hún hlustar sem sagt hvorki á okkur þegar við reynum að tala á rólegu nótunum og útskýra fyrir henni af hverju, og heldur ekki þegar við verðum reið.

Okkur finnst við vera búin að reyna allt. Við höfum tekið okkur á og passað okkur að hækka ekki róminn við hana þegar við skömmum hana og höfum haldið það í ágætan tíma, en hún fer svo langt yfir strikið í virðingarleysinu sem við einhvernvegin höfum leyft henni að komast upp á lagið með, að við hreinlega endum alltaf í þessum vítahring aftur.

Hegðunarmynstrið hjá henni breyttist alls ekki til batnaðar þegar þetta átak var í gangi svo einhvernvegin fjaraði það út. Eftir svona hamagang á heimilinu höfum við svo annað hvort bæði eða annað okkar sest niður með henni þegar allt er komið í ró og rætt málin við hana og reynt að koma henni í skilning um að svona lætur maður ekki.

En okkur finnst við hreinlega uppiskroppa með þetta, vitum ekki hvernig við eigum að bregðast við því ekkert virðist ganga. Hvernig getur maður áunnið virðingu barnsins síns? og hvað í ósköpunum getum við hafa gert til að öðlast þessa óvirðingu fyrir okkur?

Svar:
Heil og sæl. Þakka þér fyrir bréfið og lýsinguna. Af bréfinu að dæma gæti verið um svokallaða andstöðuþrjóskuröskun að ræða hjá barninu (tíðni hennar hefur verið talin allt frá 2% til 16% eftir því hvaða viðmið eru notuð og á hverja). Svona börn voru nú bara talin óþekk hérna einu sinni.

 En hvað sem við köllum þetta eða stimplum er ljóst að eitthvað verður að gera í málinu. Ef um mjög alvarlegt tilfelli er að ræða er best að leita til sálfræðings og fá sérhæfðar leiðbeiningar frá honum. Hann þarf að fá mjög ítarlegar upplýsingar um hegðun barnsins og með foreldrunum er svo komið á einhvers konar kerfi sem miðar að því að draga úr þessari hegðun barnsins.

Slíkum kerfum verður að fylgja 100% og þau þarf að endurmeta reglulega til að tryggja árangur. Grundvallaratriðin eru þau að foreldrarnir verða að vera sjálfum sér samkvæmir og setja barninu mörk. Gott er að koma á umbunakerfi sem felst í því að barnið fær eitthvað sem því þykir mikils vert ef það hegðar sér vel (ferð með foreldrunum í bíó eða sund, leigð spóla, keyptur ís, leikfang o.s.frv.). Þegar barnið brýtur af sér er líka um að gera að svipta það einhverju sem því finnst akkur í. (t.d. að horfa á sjónvarpsþátt, fá eftirrétt, fara út að leika sér o.s.frv.).

Það er sennilega ekki til neins að velta sér upp úr því hvað olli því að svona er komið en börn eiga það til að reyna að komast upp með eins mikið og hægt er en ofangreind saga bendir til að hér sé um eitthvað meira að ræða. Skammir og tiltal hafa greinilega dugað skammt og þú segir sjálf að þið hafið leyft henni að komast upp á lag með þetta. Nú er um að gera að breyta því. Með hnitmiðuðum reglum, sem fylgt er stíft eftir, breytist hegðun barnsins. En ég árétta enn og einu sinni að best er að gera þetta með fagmann sér við hlið.

Gangi ykkur vel.
Reynir Harðarson
sálfræðingur S: 562-8565