Vantar upplýsingar – dóttir mín sker sig?

Spurning:
Mig sárvantar efni til að lesa um fólk (unglinga) sem ,,skera sig“ þar sem ég hef fundið fullt af skrifum frá krökkum sem gera þetta á ,,Geðheilsa“ hér á umræðuvef ykkar. Einnig hef ég lesið margt á erlendum vefum um self hurters og self injuries, en aldrei rekst ég á neitt frá læknum eða þeim sem hafa ráð fyrir þetta fólk eða aðstandendur. Ég á dóttur sem gerir þetta og vantar ráð og lesefni. Hvar eru sérfræðingarnir?

Svar:
Sæl.
Það er vel þekkt hjá konum og sérstaklega hjá unglingsstúlkum að skera sig. Sjálfsskaðandi hegðun er nokkuð vítt hugtak og er oft notað um margskonar hegðun eins og áfengismisnotkun eða óábyrgt kynlíf. Sjálfsskaðandi hegðun kemur yfirleitt vegna vanlíðunar og eru viðbrögð við slíkri líðan. Alvarleg sjálfsskaðandi hegðun er eitt einkenna jaðarpersónuleikaröskunar (borderline personality disorder) hjá fullorðnum og tengist tilfinningalegum óstöðugleika og vanlíðan. Algengast er að skera sig og brenna en margar stúlkur fá varanleg ör eftir slíkt. Flestar konur sem skera sig finna fyrir tímabundnum létti frá andlegum sársauka og líklegast er að þær skeri sig þegar vanlíðan er sem mest. Að einhverju leyti er þessi hegðun líka tengd því að fá athygli eða hjálp og er að því leyti lærð hegðun. Kenna þarf að nota aðrar aðferðir við að létta á sársauka t.d. kenna að óska eftir hjálp og leyfa öðrum að hjálpa sér. En þar sem sjálfsskaðandi hegðun er afleiðing vanlíðunar þá þarf fyrst og fremst að vinna á vandamálinu sjálfu. Þá er yfirleitt notuð sérhæfð viðtalsmeðferð og í sumum tilvikum lyfjameðferð.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur