Varaþurrkur

Spurning:

Ég er með 11 ára stelpu sem er alltaf með varaþurrk. Ég er búin að reyna ýmsar gerðir af varasalva án árangurs, mér var bent á að nota AD græðandi smyrsl en það dugði ekki. Hún stundar fimleika fjórum sinnum í viku og hún telur sig drekka mikinn vökva. Árstíminn virðist ekki skipta máli. Hvað er til ráða?

Svar:

Varaþurrkur er algengt vandamál, ekki síst hér í þessu landi stöðugra veðrabreytinga. Því miður færi ég þér ekki neina lausn á slifurfati en nokkur ráð eru þekkt, sum hafið þið þegar reynt. Mikilvægt er að drekka vel af vatni. Varast að sleikja mikið varirnar og húðina í kringum varirnar. Kuldi og þurrt loft sem t.d. er oft í íþróttahúsum gerir vandann verri. Verja þarf varirnar reglulega, oftast nægir að nota varasalva og skýla vörunum fyrir miklum kulda. Varasalvar eru mjög mismunadi, sumir hafa ilm- og litarefni sem fara illa á viðkvæmar varir. Þegar vandinn er orðinn svona langvarandi er best að nota einfalda og feita varasalva. Meðal þeirra efna sem hægt er að nota er krem sem ætlað er á geirvörtur við brjóstagjöf og nefnist „lansinon“. Sama innihaldsefni er í varasalva sem nefnist „Soothe and heal“. Reynsla hefur sýnt að sumum með með þennan vanda dugar að nota salva sem nefnist „decubal“. Vísindlegar staðfestingar hef ég ekki að baki þessum fróðleik en það ætti ekki að saka að reyna. Án efa eru margar aðrar tegundir á markaðnum sem duga til að bæta ástandið og því um að gera að gefast ekki upp.

Gangi ykkur vel,
Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir.