Velja fæðingarstað utan heimabyggðar?

Spurning:
Ég hef verið að hugsa hvað ég megi leyfa mér að fara fram á varðandi fæðingarstað. Málið er það að þegar ég ól fyrra barnið mitt þá bjó ég á Akureyri og sú fæðing gekk afleitlega, það var spurning á tímabili hvort ég færi í keisaraskurð. Núna er ég flutt þaðan og bý á litlum stað úti á landi. Ég geng sem sagt með mitt annað barn og er ekki róleg með að ala það á þessum litla stað. Get ég farið fram á að fæða t.d. í Reykjavík eða Akureyri? Við hvern tala ég um það og hvenær er ráðlegt að bera þá bón upp?

Svar:
Þú hefur rétt á að fæða barnið þitt þar sem þú vilt. Það er meira að segja ráðlegt fyrir þig að fæða á sjúkrahúsi með skurðaðsttöðu ef þú lentir í einhverjum hremmingum í síðustu fæðingu. Þú getur rætt þetta við þá ljósmóður sem er með þig á meðgöngunni eða lækninn þinn. Þegar svo líður að fæðingunni þá ferð þú einfaldlega þangað sem þú ætlar að fæða – hringir svo á undan þér þegar fæðingin byrjar. Það er engri konu neitað um að fæða á sjúkrahúsi með fæðingaraðstöðu.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir