Verkir í fótum

Spurning:
Ég á tveggja og hálfs árs gamlan dreng sem er alltaf að kvarta að honum finni svo til í fótunum sérstaklega í sköflungunum og hnjánum, stundum á næturnar grætur hannn og grætur og nuddar svo á sér fæturnar.

Fyrst hélt ég að þetta væri bara vaxtarverkir en ég er farinn að efast því þetta er búið að standa yfir svo lengi. Svo ég segi svona í stuttu máli hvernig hann er þá hefur hann alltaf verið frekar linur alveg frá því að hann var ungabarn. En samt byrjaði hann að labba 10 mán. ekki veit ég hvernig en hann gat það.
Svo fór ég með hann til barnalæknis og honum fannst hann vera með mjög slök liðbönd og mjög léttur því hann er bara um 11 kg. Strákurinn kvartar orðið líka um í bakinu og er latur að labba og rosalega vansæll greyið, hann grætur mikið og finnur oft mikið til. Við fórum með hann til fótasérfræðing sem ráðlagði okkaur að kaupa góða háa skó og sjá svo til en þetta var fyrir 8 mán og hann skánar ekkert.

Hann er með smá ilsig en ekkert mikið og kannski þarf hann að fá innlegg en staðan er sú að við eigum heima útá landi þannig að það maður kemst ekki alltaf í bæinn. Ég veit ekkert hvað ég á að gera, getið þið ráðlagt mér eitthvað

Svar:
Að tveggja og hálfs árs gamalt barn sé svona vansælt eins og þú lýsir getur ekki verið nein uppgerð og ber að taka alvarlega.
Mér finnst nauðsynlegt að þú leitir til barnalæknis sem fyrst. Það væri réttast að þú fengir álit barnalæknis sem hefur sérhæft sig í bæklunarlækningum eða gigtsjúkdómum þar sem þú segist hafa farið til barnalæknis áður og fengið þá greininguna slök liðbönd.

Einnig væri gott að fá ráð hjá barnasjúkraþjálfara í kjölfar læknisskoðunarinnar. Þú getur pantað tíma hjá barnasjúkraþjálfara eftir að þú hefur fengið tíma hjá barnalækninum þannig að þú getir notað sömu ferðina í bæinn. Ég reikna með að biðtími sé nokkur hjá báðum aðilum þannig að það er vissara að reyna að ganga frá þessu sem allra fyrst.

Gangi þér vel,

Erna Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari í Styrk