Verkir í mjöðm og liðum

Hæ.
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa því sem hrjáir mig. Ég hef semsagt verið með verk öðrumegin í mjöðminni sem ég hélt fyrst að væri harðsperrur eftir íþróttir. Ég hef verið með þennan verk í nokkrar vikur og núna finnst mér hann hafa versnað og er ég farin að finna einnig til í mjóbakinu. Mér finnst verkurinn koma ef ég er í hvíld lengi og þegar ég geng. Verkurinn á það til að leiða niður í fótlegg.
Ég fór að velta fyrir mér hvort þetta séu afleiðingar af grindagliðnun sem ég fékk þegar ég var ólétt fyrir rúmlega ári síðan. Í heilt ár hef ég hlíft mér töluvert og passa hvert skref sem ég geng sem hefur gert það að verkum að ég hef algerlega breytt um göngulag sem hefur þreytt mig rosalega líka vegna þess að ég hef verið með mikla verki og stirðleika í liðum og þá sérstaklega hnjám.
Gæti þetta verið merki um vefjagigt?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað er að valda þessum verkjum án þess að skoða þig. Það er vel mögulegt að þú sért enn að glíma við eftirköst eftir grindargliðnun á meðgöngu en svo getur líka verið um að ræða bólgur í vöðvum eða vöðvafestingum í mjóbaki eða jafnvel byrjandi brjósklos. Ég ráðlegg þér að byrja á því að panta þér tíma hjá heimilislækni og fá góða skoðun og mat á því hvað þetta er. Kannski vill hann senda þig í einhverjar myndatökur til að fá greininguna en áður en meðferð hefst er best að vita nákvæmlega hvað þetta er. Það er ekki ólíklegt að nudd eða sjúkraþjálfun mundi gagnast þér en til þess að komast í sjúkraþjálfun þarftu beiðni frá lækni. Heimilslæknirinn þinn mundi þá skrifa upp á slíka beiðni ef hann telur að það mundi gagnast þér.

Gangi þér vel