Verkur í nára

Spurning:

Ég var að koma heim úr vikulangri gönguferð um Hornstrandir. Ég hélt ég hefði æft mig vel fyrir ferðina og væri í góðu formi, en á fyrsta degi, sem reyndar var nokkuð langur dagur, hátt í tuttugu kílómetrar, fékk ég verk í  nárann sem plagaði mig það sem eftir var ferðar. Spurningin er: Hvað var þetta og hvað olli? Hvað gerði ég vitlaust og hvað get ég gert til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig? Mér virtist helst eins og þetta væri í sin eða vöðvafestingu eða eitthvað slíkt. Ég fann til í hverju skrefi, í hvert skipti sem ég lyfti vinstri fætinum. Þetta var verst á jafnsléttu, en betra (eiginlega bara allt í lagi) í bratta, bæði upp og niður. Þetta var líka verra eftir því sem skrefin voru lengri. Í stuttu máli sagt var ég draghölt allan tímann og að drepast úr verkjum. – Hvað er til ráða?

Með fyrirfram þökk,

Svar:

Sæl.
Mér finnst líklegt að verkurinn stafi af bólgum í vöðvafestum kringum mjaðmarliðinn. Bólgurnar geta komið vegna ofálags.  Hugsanlega gæti þetta stafað af bólgum í festum við spjaldlið, eða einhverri skekkju þar en í raun er ekki hægt að greina þarna á milli nema með því að skoða þig nánar. Verkir á þessu svæði geta leitt fram í nára. Oft tekur það 4-6 vikur að jafna sig ef svona blossar upp eftir álag. Þú ættir samt að stunda hæfilega líkamsþjálfun, göngur eða sund og góðar teygjur á eftir. Ég mæli með að þú látir sjúkraþjálfara skoða þig betur til að greina þetta nákvæmlega.

Kveðja, Sigþrúður Jónsdóttir sjþj. í Styrk