Vindverkir og vindgangur?

Spurning:
Ég er 22 ára gömul stúlka og á við vanda að stríða. Ég hef verið undanfarið árið með rosalega vindverki. Ég borðaði rosalega mikið af feitum mat fyrst, og drakk mikið gos, og hélt ég að það væri að valda þessum vindverkjum. Svo tók ég mig á og fór að borða nóg af grænmeti og trefjaríkri fæðu. Þetta lagaðist í smá tíma, en svo fór þetta að koma aftur. Mér er virkilega farið að líða illa útaf þessu, andlega séð. Er eitthvað fæði sem ég að forðast að borða, eða borða meira af? Ég hef séð fullt af lyfjum sem bæta meltingu, en ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætti að kaupa (og ég hef ekki þor í það að tala um þetta vandamál við afgreiðslufólkið). Mér þætti vænt um ef þið gætuð hjálpað mér. Kveðja ein í vanda.

Svar:
Sæl.

Vandamálið sem þú lýsir er nokkuð algengt og bagalegt. Líklegast er að þú hafir þarmaflóru sem framleiðir mikið loft (gas) úr fæðunni. Þú ert að gera rétta hluti með að prófa þig áfram í matarræðinu. Grænmeti og trefjar geta valdið mikilli gasmyndun hjá sumum, þó það sé hollt og gott. Þú ættir kanski að draga úr því aðeins og prófa t.d. pastarétti. Einnig getur verið gott að taka inn LGG gerla sem fást þar sem mjólkurafurðir eru seldar. Þessir gerlar geta haft hagkvæm áhrif á þarmaflóruna. Einnig er hægt að kaupa Minifom dropa í apótekum án lyfseðils, sem draga úr loftmyndun. Ef þetta dugar ekki ættir þú að láta meltingarlækni líta betur yfir þín mál með skoðun og viðtali. Til að mynda getur glúten- og/eða mjólkuróþol líst sér svona, svo og ristilkrampar.

Bestu kveðjur

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum