Vítamín á meðgöngu

Spurning:
Ég er ófrísk, gengin 8 vikur, og er að spá í vítamín ég er ekki að taka neitt aukalega inn, kvensjúkdómalæknirinn mælti ekkert sérstaklega með því, huga bara að mataræðinu, ert þú sammála því?
Ég fæ mér á hverjum degi möluð hörfræ, rúsínur, sveskur,,sesamfræ og sólblómafræ ( eiga hörfræ ekki að hafa mikið af fólinsýru ) í soyajógúrt eða ab mjólk, fæ ég nægilegt magn af nauðsynlegum efnum í þessu?
Eða þarf ég þá svo mikið magn, til að svo takist?

Áður fyrr hef ég alltaf verið með ristilsvandamál, uppþembu og þannig, mér finnst hörfræin duga, en er eitthvað annað hollt og gott sem þú gætir mælt með, því ég er viðbúin því að þetta vandmál gæti versnað.

Og að öðru ég tek ekki oft inn verkjatöflur, en ef ég þyrfti á að halda (við höfuðverk) hvað er í lagi að taki inn, ef einhverjar ?

Svar:
Það er talið gott að konur taki lýsi og fjölvítamín án A- og D – vítamíns á
meðgöngu eða ef þær þola ekki lýsið, fjölvítamín með A- og D- vítamíni.
Hörfræ eru nú ekki besta uppspretta fólínsýru en hins vegar er mikið af
henni í ýmsum grænmetis- og korntegundum, þ.m.t. sesamfræum. Þótt þessi
blanda þín uppfylli þannig ekki næringar- og vítamínþörfina er hún
áreiðanlega mjög góð fyrir meltinguna svo þú skalt endilega halda áfram að
taka þetta, þar sem það er viðbúið að eitthvað hægi á meltingunni á
meðgöngunni, eins og þú greinilega veist sjálf.

Varðandi höfuðverkjartöflur þá er ekki ráðlegt að taka nein lyf á meðgöngu,
ekki heldur náttúrulyf, en Paracetamol er talið meinlausast og í lagi að
taka það í hófi af og til.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir