Vöðvabólga og svimi

Spurning:

Hæ hæ.

Mig langar að vita hvort maður geti fengið svima af vöðvabólgu??
Ég er með mikla vöðvabólgu í herðum og hálsi og fæ oft svima og höfuðverk og hef stundum áhyggjur af því að það sé eitthvað alvarlegt að mér. Hvað get ég gert?? Er gott að fara í sund og synda??
Hver eru einkenni við mikilli vöðvabólgu??

Takk fyrir með von um svar fljótlega.

Svar:

Það er vel þekkt að mikil vöðvabólga í hálsi, herðum og einkum í hnakkafestum geti valdið svima. Svimi getur átt sér margar aðrar orsakir. Ef hann er viðvarandi þá er best að leita læknis. Höfuðverkur getur einnig orsakast af spennu á þessu svæði. Einkenni mikillar vöðvabólgu eru verkir, spenna og þreyta á viðkomandi svæði. Oft fylgir stirðleiki í hálsi og jafnvel í brjóstbaki og höfuðverkur er nokkuð algengur fylgifiskur.

Hvað er til ráða? Best er að ráðast á undirliggjandi orsök vöðvabólgunnar t.d. bæta líkamsstöðu, vinnustöðu, draga úr einhæfu álagi, gera æfingar fyrir háls, herðar og hnakka. Sjúkraþjálfun getur komið að miklu gagni, bæði í meðferð og í kennslu á sjálfshjálp. Hvað varðar sund, þá mæli ég ekki með að þú syndir bringusund því að það veldur mikilli spennu í hálsvöðvum og getur aukið á einkennin. Skriðsund eða baksund er mun betra og gott er að fara í sund og gera æfingar og teygjur í heitum potti.

Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari.