Vörtur á forhúð – hvað er til ráða?

Spurning:

Góðan dag.

Ég er með vörtu á utanverðri forhúðinni og vil helst losna við hana. Ég er 23 ára, frískur og lifi heilbrigðu kynlífi. Þegar ég fékk vörtu á tá eitt sinn þá fékk ég vörtusmyrsl sem heitir Verucid gel, vortemiddel frá NYCOMED. 1g. inniheldur Acid, salicylicum 100mg, lactivum 40mg, cupri.acetas ~0,01mg Cu, Ven, therebinth, colophonium, spir.fortis, collodium. Þetta hef ég notað með góðum árangri og ég var að spá í hvort það væri öruggt að nota þetta á utanverða forhúðina. Það stendur á pakkanum reyndar að það megi ekki nota í nálægt slímhimnu, en þar sem þetta er á utanverðri forhúðinni datt mér í hug að spyrja. Ef ég má ekki nota þetta smyrsl, gætirðu þá bent mér á eitthvað annað?

Bestu kveðjur með þökk!

Svar:

Þetta lyf hefur staðbundin ætandi og hornhúðarleysandi áhrif og getur því leitt til sáramyndunar sé það borið á heila húð eða ef of mikið er notað. Það á að vera allt í lagi að bera þetta á þann stað sem þú nefndir (utanverða forhúð), passa bara að setja ekki mikið og ekki út fyrir vörtuna. Lyfið er borið á í þunnu lagi og það myndast hlífðarhimna sem er óleysanleg í vatni. Það er því gott að bíða í nokkrar mínútur eftir að borið er á vörtuna svo hlaupið makist ekki út um allt.
Mjög mikilvægt er að nota smokk við samfarir, bæði til að varna því að rekkjunauturinn smitist og ekki síður til að verjast smiti frá rekkjunauti. Sár getur myndast á húðina af notkun lyfsins og er þá greiðari leið fyrir sýkingar.

Kveðja,

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur