Ýmsar lyfjaspurningar

Spurning:
Góðann daginn.
Ég er 23 ára karlmaður sem að á við ýmsa kvilla að stríða sem mér þætti mjög gott að fá einhver ráð við. En þannig er mál með vexti að ég greindist með þunglyndi og ADD þegar ég var ca. 18 ára gamall og hef verið í meðferð við því hjá mjög góðum geðlækni sem hefur hjálpað mér mikið. En ég er að taka inn lyfin Ritalin 3 töflur á dag = 30 mg, Efexor 2 töflur á dag = 75mg og Lamictal 100mg á dag. Undanfarið hef ég verið að upplifa miklar meltingartruflanir sem lýsa sér í niðurgangi sem er eiginlega bara vatn og loft. Þetta virðist gerast sama hvað ég borða og ég hef ekki breytt lyfjaskammtinum mínum í svolítinn tíma.
Einnig hef ég fundið fyrir mjög mikilli ljósfælni, ég hreinlega þoli ekki mikla birtu og get varla haldið augunum opnum. Fyrir stuttu leitaði ég til gigtarlæknis vegna mikilla liðverkja í fingrunum og öxlum og baki og hann sagði við mig að ég væri með vefjagigt á lágu stigi, þar sem ég þekki vel inná vefjagigtina var ég ekkert að taka allt of mikið mark á honum því ég er ekki með þessa týpísku aumu punkta á líkamanum eða svefnóreglu sem einkennir vefjagigtina mikið, en ég er alltaf þreyttur, svo ég fór aðeins að lesa mér til um á vefnum ykkar og fannst síþreytan eiga rosalega vel við mig, alltaf þreyttur, ljósfælni, meltingartruflanir, liðverkir, hitaóregla á líkamanum, þoli ekki áfengi o.m.fl. Hvert á ég að leita með þessi vandamál því ég vinn mikið með fingrunum og þarf að finna einhverja lausn á þessum málum? Einnig væri gott að fá einhverja skýringu á meltingartruflununum og ljósfælninni. Ég tek það fram að ég borða mjög fjölbreytta fæðu og tek reglulega inn vítamín og þá aðallega B-vítamínin.
Vonandi getiði gefið mér einhver svör.

Svar:
Ekki er mælt með því að áfengi sé notað með Ritalin. Lamictal getur valdið tvísýni, þokusýn og tárubólgu. Efexor getur valdið sjóntruflunum. Ekki er þó talað um ljósóþol í þessu sambandi. Lamictal getur valdið bæði niðurgangi og liðverkjum. Efexor getur valdið niðurgangi. Ekki er getið um hitaóreglu sem aukaverkun af þessum lyfjum. 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur