Lifrarbólga – ferðamannabólusetningar

Þegar ferðast er til fjarlægra landa er að mörgu að huga. Mikilvægt er að þekkja hættur og smitleiðir sjúkdóma svo að hægt sé að gera ráðstafanir til þess að minnka hættu á smiti.

Lifrarbólga er veirusjúkdómur sem veldur bólgu í lifrinni. Það eru til margar tegundir af lifrarbólgum og eru þær helstu kallaðir A, B,og C. Lifrarbólga getur haft misalvarlegar afleiðingar en það fer eftir tegund sjúkdómsins. Algengasta orsök lifrarbólgu er af völdum veiru og eru smitleiðir mismunandi en hægt er að smitast með neyslu matvæla, drykkju óhreins vatns eða með líkamsvessum. Jafnframt getur lifrarbólga orsakast af lyfjum eða verið afleiðing áfengisneyslu.

Það er lítið um árangursríkar meðferðir ef einstaklingur smitast og því eru fyrirbyggjandi aðgerðir mjög mikilvægar. Stór forvarnaþáttur snýr að hreinlæti með tíðum handþvotti eða handspritti en jafnframt er mikilvægt gæta þess hvar og hvað er borðað þar sem hreinlæti er ábótavant.

Lifrarbólga A

Er sjaldgæf á Íslandi en þau tilfelli sem koma fram eru oftast vegna ferðalaga erlendis. Aðalsmitleiðin er saur – munn smit, beint eða óbeint. Veiran getur lifað lengi í vatni og getur smitast með matvælum eða frá smitandi einstaklingi en einnig getur veiran borist á milli við náin samskipti. Það fá ekki allir einkenni sem sýkjast en flestir finna fyrir þreytu og lítilli matarlyst í vikur eða mánuði. Í fyrstu koma fram flensueinkenni, lystarleysi og ógleði með hita og á nökkrum dögum getur komið fram gula og dökknar þá þvag og hægðir verða ljósar. Sýking af völdum lifrarabólgu A gengur yfir án meðferðar. Hægt er að fyrirbyggja lifrarbólgu A með bólusetningu og þá er bóluefnið gefið í tveimur sprautum með 6-12 mánaða millibili.

Lifrarbólga B

Smitast á svipaðan hátt og alnæmi, með nálum og líkamsvessum.Talið er að um helmingur þeirra sem smitist fá sjúkdómseinkenni sem eru þreyta, lystarleysi, uppköst, hiti, gula, dökkt þvag og ljósar hægðir. Einkenni geta varað vikum saman og einstaklingar geta verið smitberar alla ævi og losna ekki við veiruna. Þá er hætta á skorpulifur og lifrarkrabbamein. Það er hægt að láta bólusetja sig fyrir lifrarbólgu B og þá er bóluefnið gefið í þremur sprautum með 3ja mánaða millibili.

Lifrarbólga C

Smitast á sama hátt og lifrarbólga B og er talið að þeir sem veikjast verða smitberar út ævina.

Hægt er að leita upplýsinga hjá Heilsuvernd hvaða bólusetningar sé æskilegt að hafa virkar en einnig bendum við á heimasíðuna cdc.gov sem er góð upplýsingasíða fyrir þá sem eru á faraldsfæti.

Höfundar greinar