A-vítamín

A-vítamín er fituleysanlegt vítamín og er m.a. nauðsynlegt fyrir sjón, frjósemi, ónæmiskerfið, stýringu erfða, slímhimnur og vöxt. Mikill A-vítamínskortur getur leitt til sýkinga, náttblindu sem síðar verður blinda, og endar með dauða. Mikilvægustu myndir A-vítamíns:

Retínól er að finna í mat úr dýraríkinu og karótín kemur úr jurtaríkinu en mikilvægast af þeim er ß-karótín. Þau geta öll breyst í retínól í líkamanum.

A-vítamínið er geymt í lifrinni og fituvefjum til notkunar seinna. Vítamín geymist tiltölulega lengi í líkamanum og óþarfi að taka það inn á hverjum degi – það ætti að nægja að borða lifur einu sinni í viku.

Hvernig nýtir líkaminn A-vítamín?

A-vítamín (retínól) er virkt á mörgum sviðum:

  • Þýðing þess fyrir sjónina. Vítamínið er notað til að framleiða litarefni í nethimnu augans sem er mikilvægt fyrir nætursjónina. Litarefnið verður virkt þegar ljósið lýsir á nethimnu augans og hún býr til rafboð sem fer til heilans fyrir tilstilli tauganna og verður þar að mynd.
  • Vítamínið hefur líka þýðingu fyrir vöxtinn, myndun nýrra sáðfrumna og fyrir bragðskynið.
  • Það hamlar vexti óæskilegra baktería (sjúkdómsvarnir)
  • Það vinnur móti húðþurrki.

A-vítamínið hefur einnig þýðingu fyrir genastýringu, og þess vegna m.a. fyrir þroska ýmissa líffæra fósturs.

Hvaða fæða inniheldur A-vítamín?

A-vítamín er í vörum úr dýraríkinu, einkum lifur, fiski og eggjum, efnabættu smjörlíki og mjólkurvörum en einnig í ávöxtum og grænmeti, einkum þeim sem eru gulir eða dökkgrænir að lit, t.d. gulrótum, spínati, grænkáli, apríkósum og melónum.

Hvað má taka mikið?

Ráðlagður dagskammtur er um það bil 1 mg á dag. A-vítamín er mælt í einingum sem samsvara retínólmagni (RJ). Ráðlagður skammtur er 900 RJ fyrir karla en 800 fyrir konur.

Það er afar sjaldgæft að menn þjáist af A-vítamínskorti en það er hægt að fá of mikið af A-vítamíni, sérstaklega ef fæðið er of fituríkt.

Hætta er á eitrun  ef neytt er meira en 15 milligramma á einum degi

Hverjum er hættast við A-vítamínskorti?

Aukin hætta er á vítamínskorti vegna:

  • elli
  • einhæfs mataræðis
  • langvinnra sjúkdóma og lyfja sem hindraupptöku fitu frá þörmunum
  • þungunar og brjóstagjafar
  • langvinnra sjúkdóma sem hafa áhrif á upptöku næringarefna
  • misnotkunar áfengis
  • langvarandi megrunarkúra.

Hvernig lýsir skortur sér?

  • Minni viðnámsþróttur í veikindum
  • Náttblinda
  • Þurr húð

Vítamínskorturinn er fundinn með blóðprufu þar sem magn retínóls er mælt.

Hvernig er ráðin bót á A-vítamínskorti?

Fólk sem býr við slæma upptöku fitu fær stóra fyrirbyggjandi skammta af A-vítamíni. Retínólmagn blóðsins er mælt daglega.

Hvers þurfa barnshafandi konur að gæta?

Of stór skammtur af A-vítamíni eykur hættuna á vansköpun.

Þungaðar konur og þær sem hafa barn á brjósti ættu ekki að borða lifur eða taka bætiefni með A-vítamíni. Höfuðbein, miðtaugakerfið og hjartað eru sérstaklega viðkvæm. Þess vegna er þunguðum konum ráðið frá því að borða kálfa- og svínalifur eða að neyta bætiefna með A-vítamíni. Innihald venjulegrar vítamíntöflu er hæfilegt magn en þó er betra fyrir þungaðar konur að taka fjölvítamín sem inniheldur minna af A-vítamíni. Vegna þess að A-vítamín er fituleysanlegt, skilst það líklega úr í móðurmjólkinni sem veldur því að of stórir skammtar gætu hugsanlega valdið eitrun í barninu.

Hvernig lýsir of mikið A-vítamín sér?

Bráðaeitrun: Ef tekið er meira en 100 mg (100 sinnum meira en ráðlagður dagskammtur) getur það valdið bráðri eitrun ásamt:

  • hækkuðum blóðþrýstingi og höfuðverk
  • ógleði og uppköstum
  • óþoli og krampa.

Ef tekinn er stór skammtur sem veldur eitrun, getur það einnig valdið kláða og húðhreistri.

Langvarandi ofneysla:

Stærri skammtar en 15 mg geta valdið alvarlegum eitrunum. Neysla skammta sem eru 5-10 sinnum stærri en ráðlagður dagskammtur geta við langvarandi notkun valdið:

  • auknum þrýstingi í miðtaugakerfinu og höfuðverki
  • uppsölu
  • þurri slímhimnu og þurri húð
  • beinverkjum
  • lifrarskemmdum.

Ef nýrnastarfsemin veikist til muna ætti ekki að neyta bætiefna með A-vítamínum.

Ef spurningar vakna er best að leita ráða hjá lækni.

Getur lyfjagjöf valdið vítamínskorti?

Hætt er við A-vítamínskorti við langvarandi notkun sýrustillandi lyfja sem notuð eru gegn magasýru og magasári. Sum lyf draga úr upptöku fitu í þörmunum, t.d. paraffínolía og kólestýramín o.fl. og þar sem A-vítamínið leysist upp í fitu draga þessi lyf einnig úr upptöku A-vítamíns.

Greinin var uppfærð 26.febrúar 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur hjúkrunarfræðingi

 

 

Höfundur greinar