Ávarp landlæknis við opnun Netdoktor.is

Tölvuvæðing undanfarinna áratuga og afsprengi hennar, veraldarvefurinn, er tvímælalítið einhver mesti ávinningur sem tækni samtímans hefur fært okkur. Fjarlægðir milli manna hafa minnkað og aðgangur að upplýsingum er orðinn greiðari. Í byrjun var vefurinn fyrst og fremst rannsóknatæki og vettvangur háskólamanna en er nú orðinn almannaeign. Sókn fólks í og þörf fyrir upplýsingar af öllu tagi fer enda vaxandi og ber þar heilbrigðismál hátt. Almenningur er sífellt að gera sér grein fyrir eigin ábyrgð á heilsu sinni og sækir í þekkingu til að geta risið undir þeirri ábyrgð. Þegar sjúkdóm ber að höndum þarf fólk einnig upplýsingar, menn vilja í auknum mæli taka þátt í ákvörðunum sem lúta að eigin heilsu með læknum sínum og hjúkrunarfræðingum, vega og meta möguleika. Til þessa þarf fólk greiðan aðgang að handhægum og skýrum upplýsingum um heilsufar og sjúkdóma. NetDoktor.is vefsíðan sem hér er að hefja göngu sína veitir slíkan aðgang. Þar er að finna alþýðlegt og viðamikið fræðsluefni um heilbrigðismál, borið fram á skýran og greinargóðan hátt. Vefsíðan er nokkurs konar lýðskóli og sver sig að því leyti í ætt við almannafræðsluna sem var mörgum góðum manni hugsjón á 19. og 20. öldinni. En NetDoktor.is er að sjálfsögðu 21. aldar fyrirbæri og útfært með þeim tólum og tækjum sem eru tákn okkar tíma. Þar er samankominn mikill höfuðstóll þekkingar á sviði heilbrigðismála aðgengilegur hverjum sem hefur aðgang að tölvu og tengingu við vefinn. Þessi aðgangur eykst með viku hverri. Líta ber á þessa vefsíðu sem hluta þeirrar öru þróunar í rafrænum samskiptum, sem nú einkennir heilbrigðisþjónustuna. Verið er að þróa rafræna sjúkraskrá, sjúkrastofnanir verða brátt samtengdar í íslensku heilbrigðisneti, fjarfunda- og fjarlækningabúnaður er að skjóta rótum víða um land. Þetta mun geta breytt verulega daglegu starfi heilbrigðisstarfsfólks, og ekki síst koma hinum dreifðari byggðum landsins vel. Það er von mín að þetta frumkvæði, NetDoktor.is verði til þess að efla meðvitund almennings og ábyrgðartilfinningu um eigin heilsu. Aðstandendum öllum óska ég til hamingju með framtakið með von og vissu um að það beri góðan ávöxt.