Blæðing – Útvortis

Útvortis blæðing er það þegar blóð streymir úr opnu sári. Blóðmissir getur orðið mikill á skömmum tíma.

Gerðir útvortis blæðinga
Útvortis blæðingum má skipta í þrennt eftir uppruna.
Slagæðablæðing: Slagæðablæðing er alvarlegasta tegund blæðingar. Blóðið spýtist hratt úr áverkanum og blóðmissirinn er því mikill. Við slagæðablæðingu storknar blóðið ekki af sjálfu sér þar sem storknun á sér einungis stað ef blóðið rennur hægt eða ekki. Eitthvað utanaðkomandi þarf til að stöðva slagæðablæðingu.
Bláæðablæðing: Við bláæðablæðingu rennur blóðið jafnt og þétt þó það geti líka gusast úr sárinu. Auðveldara er að hefta bláæðablæðingu en slagæðablæðingu..
Háræðablæðing: Við háræðablæðingu vætlar blóð úr áverkanum. Háræðablæðing er sjaldnast alvarleg og oftast er auðvelt að hefta slíka blæðingu.

Mikilvægt er að stöðva blæðingu eins fljótt og auðið er. Eðilegt blóðmagn hjá fullorðnum er  5-6 lítrar, hjá börnum 2-3 lítrar og ungbörnum 300-800 ml. 

Hvað gerirðu?
· Tryggðu öryggi, notaðu hlífðarhanska .
· Fylgstu með meðvitund, öndun og blóðrás. 
· Skoðaðu sárið. 
· Stöðvaðu blæðingu með því að þrýsta beint á sárið með grisju eða hreinum klút. 
· Lyfttu undir útlim/áverkastað ef blæðing er mikil. 
· Settu þrýstiumbúðir á sárið, sjá nánar sáraumbúðir. 

 Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands