Bólusetning gegn leghálskrabbameini

Vörtuveirur (Human Papilloma Virus, HPV) geta valdið leghálskrabbameini og eru vissar
gerðir þeirra taldar frumorsök slíks krabbameins. Um þessar mundir eru á markaði tvö bóluefni
gegn þeim stofnum HPV (16/18) sem oftast valda krabbameini. Veirurnar geta
einnig valdið sjaldgæfari krabbameinum og sumir stofnar þeirra (6/11) kynfæravörtum.
Þessi bóluefni eru Gardasil® frá Merck and Co., Inc. og Cervarix® frá GlaxoSmith-
Kline. Gardasil® inniheldur mótefnavaka gegn HPV 6/11/16 og 18 og Cervarix®
mótefnavaka gegn HPV 16/18. Bæði bóluefnin eru ónæmisvekjandi og örugg og hafa
góða virkni til að koma í veg fyrir forstigsbreytingar leghálskrabbameins af völdum
HPV 16/18, en þær valda þessum sjúkdómi í a.m.k. 60% tilvika.
Á Íslandi greinast um 17 konur árlega með leghálskrabbamein. Meðalaldur þeirra er 45
ár og á fimm árum eftir greiningu deyja um 20% þeirra. Það er til mikils að vinna ef
hægt er bægja þessum sjúkdómi frá og því er nauðsynlegt að meta hvort fýsilegt sé að
hefja almenna bólusetningu gegn HPVsmiti og leghálskrabbameini hér á landi.
Nýlega var gefin út skýrsla á vegum sóttvarnalæknis um kostnaðarhagkvæmni þess
að hefja almenna bólusetningu hér á landi gegn HPV með það að leiðarljósi að fækka
leghálskrabbameini (Kostnaðargreining á Íslandi. Skýrsla vinnuhóps). Niðurstaða
skýrslunnar er sú að með almennri bólusetningu eins árgangs 12 ára gamalla stúlkna
megi árlega koma í veg fyrir leghálskrabbamein hjá a.m.k níu konum, tæplega tvö
dauðsföll og vinna um 17 lífsgæðavegin lífár (QALY).
Miðað við ákveðnar forsendur mun árlegur nettókostnaður bólusetningarinnar vera um
1,8 milljónir króna á hvert lífsgæðavegið lífár. Samkvæmt erlendum stöðlum virðist
bólusetningin hér á landi vera kostnaðarhagkvæm. Sóttvarnaráð hefur fjallað um fýsileika þess
að hefja bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Mælir ráðið með því að
almenn bólusetning verði hafin meðal 12 ára stúlkna hér á landi.
Áréttað er að bólusetningin kemur ekki í stað krabbameinsleitar og mikilvægt er að
krabbameinsleitin, sem skilað hefur góðum árangri hér á landi, haldi áfram með
óbreyttu sniði um ókomin ár. Þá ber að leggja ríka áherslu á að bólusetning gegn
leghálskrabbamein sé skráð eins og aðrar bólusetningar.

Grein þessi birtist fyrst í Farsóttafrétium 4.árg.2.tölublað