Börn á skriðaldri – öryggisráðstafanir

Efnisyfirlit

Þurfa börn á skriðaldri sérstakar öryggisaðgerðir á heimilinu?

Slæm slys geta orðið á börnum á heimilinu. Þau brenna sig, detta niður stiga, fá þunga hluti í höfuðið og jafnvel detta út um glugga ef þeir eru ótraustir.

Börn, sem eru farin að skríða og brölta á fætur eru yfirleitt á ferð og flugi og mikill kraftur í þeim. Þau geta verið eldsnögg í förum og horfin sýnum eins og hendi sé veifað. Því er um að gera að gera heimilið eins öruggt úr garði og hægt er, og fylgjast árvökull með barninu öllum stundum.

Ef heimilið er öruggt léttir það bæði börnum og foreldrum lífið. Foreldrarnir þurfa ekki að vera á nálum vegna uppátækja barnsins. Þeir þurfa ekki að vera að hrópa og kalla boð og bönn í tíma og ótíma. Barnið hefur líka betri aðstæður til að rannsaka öruggt umhverfi án þess að allt of margt sé bannað.

Hvaða öryggisráðstafanir áttu að gera í eldhúsinu?

Eldhúsið er spennandi staður fyrir barnið. Þar eru skúffur, skápar, eldavél, rafmagnstæki og ísskápur. Þar er margt sem þarf að rannsaka.

Á skúffur og skápahurðir má setja öryggisloka, svo að barnið geti ekki opnað þær. Í þeim geta verið hlutir sem barnið má ekki leika sér að, hnífar til dæmis. Lítil börn hafa ekki fullkomið vald á hreyfingum sínum og loka ekki varlega heldur af öllu afli og við það er hætta á að klemma sig illa.

Farðu gætilega með hreingerningaefni og þvottaduft

– þetta geta verið ætandi efni

Sérstaklega er mikilvægt að gæta öryggis ef í skápum eru hættuleg eða eitruð efni. Uppþvottaefni, hreingerningaefni, þvottaduft, ræstiduft, terpentína, grillvökvi og blómaáburður eru stórhættuleg og eitruð. Þau má ALDREI geyma í ólæstum skápum. Þvottaduft fyrir uppþvottavélar er afar hættulegt vegna þess að það er mjög ætandi efni. Gott ráð er að geyma öll efni í efri skápum enda stendur gjarnan á umbúðum „geymist þar sem börn ná ekki til“ og afar mikilvægt er að fara eftir þeim leiðbeiningum

Það er gaman að kippa í snúruna á rafmagnskatlinum

Ef þú ert með rafmagnstæki eða rafmagnsketil verðurðu að sjá til þess að barnið kippi ekki tækinu eða katlinum, með innihaldi, fram af borðinu og yfir sig. Hægt er að koma í veg fyrir þetta með því að vera með haldara fyrir snúrurnar og sjá til þess að þær nái aldrei fram af borðbrúninni. Einnig má stytta snúrurnar.

Einnig má minnka hættuna sem stafar af eldavélinni og bakarofninum. Til að barnið brenni sig ekki á eldavélarhellunum eða grípi í potta eða pönnuhandföng má setja öryggisgrind framan á eldavélina. Einnig má setja öryggisloku á hurðina á bakarofninum til að barnið geti ekki opnað hana. Auk þess er hægt að koma fyrir loku sem hindrar barnið í að kveikja á ofninum og stilla hitastigið. Gættu þess að bakarofnshurðin getur orðið svo heit að barn getur brennt sig á henni. Hægt er að verja barnið með því að byrgja fyrir með grind.

Hvaða öryggisaðgerðir á að gera í stofunni og öðrum herbergjum?

Í stofunni og öðrum herbergjum geta verið skúffur og skápar, eins og í eldhúsinu. Þau þarf að gera örugg eins og annars staðar.

Auk þess eru í stofunni mörg hvöss horn. Þau má verja með því að setja á þau þar til gerðar plasthlífar. Þær eru ekki mjög „smart“, en gera sitt gagn á meðan barnið er að staulast fyrstu skrefin.

Hurðir geta verið slysagildrur. Því er ráðlegt að setja dempara á eða undir þær, til að barnið klemmi sig síður. Fleygar eru hentugir.

Gluggar

Þegar barnið fer að príla verður að fylgjast með gluggunum. Börn eru eldsnögg að príla upp og detta út. Öruggast er að setja öryggisstormjárn á gluggana þannig að ekki sé hægt að opna þá meira en 10 cm. Best er að festa þau efst á gluggana til að barnið geti ekki átt við þau.

Vel þarf að ganga frá öllum snúrum og böndum í gardínum, þá sérstaklega rimla og rúllugardínum.

Sárt að fá hillur í höfuðið

Hillur eru sérlega freistandi klifurgrindur fyrir börn. Til að forða því að hillan falli ofan á barnið má festa hana við vegginn með vinkli.

Laus teppi og mottur eru hættuleg fyrir barn, sem er að læra að ganga. Það getur hrasað og dottið um bylgjur og kanta. Leggðu gúmmínet undir teppin og slepptu lausum mottum þangað til barnið er orðið eldra.

Borðdúkar eru tilvalinn stuðningur fyrir smábörn til að hífa sig upp. Borðdúka má festa með dúkaklemmum, svo að síður sé hætta á að barnið togi þá yfir sig ásamt öllu skrauti eða borðbúnaði sem fylgir með.

Rafmagnsbúnað þarf að gera öruggan um allt hús. Í öllum innstungum á að vera öryggisloki. Ef þú býrð í gömlu húsi gætir þú þurft að setja sérstaka loka í lausar innstungur  sem barnið á ekki að geta losað. Rafmagsslys eru alltaf mjög háskaleg. Þau geta valdið djúpum þriðju stigs brunasárum eða bráðum bana.

Hvað ber að varast á baðherberginu?

Baðherbergið er spennandi af því að þar er hægt að skrúfa frá krönum. Hafa ber í huga að ekki þarf dýpra vatn en 10 cm til að lítið barn geti drukknað. Lítið barn getur misst umhverfisskyn ef höfuð þess fer á kaf í vatn og því skynjar það ekki hvort það eigi að koma upp úr kafi eða reisa sig upp. Klósettinu má loka með  klemmum til að barnið geti ekki opnað það sjálft. Umgangast þarf heita vatnið okkar með varúð, það þarf lægra hitastig til þess að valda bruna í húð ungra barna v.þ.a. hún er þynnri.

Lyf eru svo skemmtileg í útliti – sérstaklega gulu pillurnar

Lyf þarf að geyma í læstum skáp svo að ekki sé hætta á að barnið geti tekið þau inn.
Lyfjaeitranir geta verið bráðhættulegar.

Enginn vandi er að steypa sér í kollhnís niður stiga

Fram að fjögurra ára aldri eru stigar hættulegir börnum. Hægt er að loka þeim með hliði. Ef bil er milli tröppu og uppstigs á að loka því til þess að barnið detti ekki þar niður eða troði þar höfðinu og festi sig. Að sjálfsögðu er stórvarasamt ef barnið er að príla á handriðinu og dettur niður. Barn getur fest höfuðið milli rimla á handriði ef bilið milli þeirra er meira en 7,5 cm.

Heilbrigð skynsemi ræður því hve langt er gengið í öryggisráðstöfunum. Aðalatriðið er að ganga svo um hnútana að barnið geti uppgötvað umhverfi sitt án þess að skaða sig.

Greinin var uppfærð 26.febrúar 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar