Bráðaflokkun og áverkamat

Í stórum slysum er helsta markmið viðbragðsaðila að koma eins mörgum slösuðum til aðstoðar og hægt er. Svokallað bráðaflokkunarkerfi gerir viðbrögð við stórslysum markviss og skilvirk. Bráðaflokkun felur í sér að setja réttan sjúkling á réttan stað á réttum tíma. Bráðaflokkun á alltaf við ef fleiri eru slasaðir en þeir sem komnir eru til að hjálpa á slysstað.

Bráðaflokkun er tvíþætt: 

 • Bráðaflokkun á slysstað eða nærri honum.
 • Áverkamat á söfnunarsvæði slasaðra, næsta sjúkrahúsi eða í sjúkrabíl.

Ávallt skal stefnt að því að nota ekki meira (fer eftir fjölda slasaðra) en 60 mínútur í að bráðaflokka og áverkameta slasaða og koma þeim af stað á viðeigandi stofnanir. Ef ekki er hægt að afgreiða hópslysavettvang innan þessara tímamarka þarf að endurskoða viðbragðskerfið sem unnið er eftir.

Bráðaflokkun á vettvangi
Þar til gerð flokkunarspjöld eru sett í plastpoka sem síðan er settur á hönd hins slasaða á vettvangi. Liturinn á spjaldinu endurspeglar ástand sjúklings og tryggir eftir aðstæðum viðeigandi aðstoð.

Rauður
Brátt, forgangur 1: Bráðliggur á að sinna þeim slasaða.

 • Hinn slasaði getur ekki gengið. Öndun ekki til staðar en viðkomandi fer að anda þegar búið er að opna öndunarveginn.
 • Hinn slasaði getur ekki gengið. Öndun til staðar en öndunartíðni er óeðlilega hæg eða hröð (lægri en 10 eða hærri en 29).
 • Hinn slasaði gengur ekki. Öndun til staðar. Öndunartíðni eðlileg. Púls hærri en 120.
 • Hinn slasaði gengur ekki. Öndun til staðar. Öndunartíðni eðlileg. Púls lægri en 120. Viðkomandi fylgir ekki fyrirmælum.

Gulur
Brátt, forgangur 2: Það liggur á að sinna þeim slasaða.

 • Hinn slasaði getur ekki gengið. Öndun til staðar. Öndunartíðni eðlileg. Púls lægri en 120.  Viðkomandi fylgir fyrirmælum.

Grænn
Má bíða, forgangur 3. Það liggur ekki á að sinna þeim slasaða.

 • Viðkomandi getur gengið.

Svartur
Látinn, forgangur 4. 

 • Hinn slasaði getur ekki gengið. Öndun ekki til staðar þó að öndunarvegur hafi verið opnaður.

Merkja þarf slasaða sem orðið hafa fyrir eitrun eða geta borið með sér smit á viðeigandi hátt og sjá til þess að þeir fari ekki inn í sjúkrabíl eða inn á sjúkrahús fyrr en búið er að hreinsa/skola þá. Það er alþekkt vandamál að sjúklingar fara sjálfir af slysavettvangi og inn á sjúkrastofnanir til að leita aðstoðar. Þetta getur stofnað öðrum í hættu. Þess vegna þarf að setja afmengunarbúnað bæði á slysstað og við spítala.

Nánara mat á söfnunarsvæði slasaðra

Á söfnunarsvæði slasaðra er framkvæmt áverkamat og nánari líkamsskoðun.  

Áverkamat
Fyrsta áverkamat er gert á söfnunarsvæði slasaðra. Áverkamatið er ítarlegra en bráðaflokkunarmatið. Tveir til þrír vinna saman að áverkamatinu. Einn sér um lífsmarkaprófið Glasgow Coma Scale (GCS) og annar um að meta öndun, blóðþrýsting og púls.

GCS felur í sér að meta hvort hinn slasaði:
1.    Opnar augun; sjálfkrafa, við ávarp, við sársauka eða alls ekki.
2.    Er með meðvitund; áttaður, ruglaður, orð úr samhengi, óskiljanlegur eða engin meðvitund.
3.    Sýnir viðbrögð; hlýðir skipunum, staðsetur sársauka, forðast sársauka, óeðlileg beygja, óeðlileg rétta eða engin svörun.

Samanlögð stig úr GCS matinu og mati á öndun og efri mörkum blóðþrýstings eru lögð til grundvallar flokkun eftir áverkamat.

Þó að sjúklingur sé í upphafi flokkaður til dæmis grænn þarf eftir sem áður að áverkameta viðkomandi reglulega og fylgjast náið með ástandi hans. Sá sem er grænn í upphafi getur skipt um lit.

Skoðun á söfnunarsvæði slasaðra
Nánara skoðun á ástandi slasaðra er snögg líkamsskoðun til að meta hvern líkamshluta fyrir sig og hvort hann er eðlilegur eða óeðlilegur. Eftirfarandi áverkar eru merktir inn á mynd af líkama; brot, opin brot, sár, bruni, liðhlaup og fleiður/mar. Einnig er stærð sjáöldur augna metin.

Útbúnaður til bráðaflokkunar og áverkamats
Sá sem sér um bráðaflokkun er útbúinn sérstakri tösku.

Í bráðaflokkunartöskunni má finna:

 • Spjald með flæðiriti sem auðveldar flokkun slasaðra á vettvangi.
 • Bráðaflokkunarspjöld/áverkamat. 5 rauð spjöld, 6 gul spjöld og 9 græn spjöld. Gott er að flokka spjöldin fyrirfram ofan í plastpokana.
 • Flokkunarspjöld fyrir svarta.
 • Plastpokar undir áverkamatið flokkunarspjöldin.
 • Upprúlluð lengja til að meta og flokka börn.
 • Ljóstúpur til að lýsa upp flokkunarmerki ef myrkur er á vettvangi 5 stk.
 • Pennar.
 • Sérstök auðkennismerki sem segja til um hvort fólk er sjúkdómssmitað, geislavirkt eða mengað af einhvers konar eiturefnum.

Bráðaflokkun á vettvangi (pdf)

Bráðaflokkun og áverkamat (pdf)

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands