Brjóstagjöf og offita barna

Brjóstagjöf getur dregið úr hættu á offitu barna. Offita er vaxandi vandamál á Vesturlöndum og hefur allmikið verið fjallað um hana hér á landi að undanförnu. Því miður er svo komið að um eitt af hverjum tuttugu íslenskra barna teljast of feit og eitt af hverjum fimm of þung. Offita verður að teljast annar af tveimur alvarlegum faröldrum sem við okkur blasa í upphafi 21. aldar, hinn er tóbaksreykingar. Vitað er að offita barna leiðir stundum til offitu á fullorðinsárum og offita hjá fullorðnum er einn af helstu áhættuþáttum fyrir ýmis konar heilsufarslegum vandamálum og eykur dánarlíkur verulega. Mikilvægt er því að freista þess að fyrirbyggja offitu barna. Nýleg þýsk rannsókn bendir til þess að brjóstagjöf geti vegið hér þungt.

 

Um það bil 10 þúsund fimm og sex ára gömul börn voru skoðuð og foreldrar þeirra spurðir með ákveðnu spurningablaði. Of feit börn voru í rannsókninni skilgreind sem börn sem voru þyngri en þyngstu 3% barna í sama aldursflokki og of þung börn voru börn sem voru þyngri en efstu 10% barna í sama aldursflokki. Talsverður munur reyndist á þyngd barna eftir því hvort þau höfðu verið á brjósti eða ekki. Tæplega 5% barnanna sem aldrei höfðu verið á brjósti voru of feit en innan við 3% barnanna sem fengið höfðu brjóstagjöf. Hætta á ofþyngd minnkaði um 30% og offitu meira en 40% hjá börnum sem fengið höfðu eingöngu brjóstamjólk í a.m.k. sex mánuði.

 

Offita á sér margar rætur og mjög erfitt er við hana að ráða. Þessar ástæður geta bæði verið háðar erfðum, en ekki síður umhverfi, einkum ýmsum samfélagslegum þáttum.

 

Leggja þarf áherslu á að til að styðja börn og fjölskyldur til heilnæmra lífshátta þurfa að koma til samfélagslegar aðgerðir. Stjórnvöld og sveitarfélög þurfa að marka stefnu sem eykur líkur á að börn hreyfi sig reglulega og temji sér heilsusamlegar matarvenjur. Skólamáltíðir þurfa að fullnægja ráðlegginum um heilsusamlegt mataræði og tryggja ætti að öll skólabörn hreyfi sig a.m.k. hálftíma á dag í skólanum. Íþróttahreyfingin verður að tryggja aðgengilegt og fjölbreytt framboð af hreyfingu fyrir börn.

 

Hins vegar bendir ofangreind rannsókn til þess að jafn einfaldur og sjálfsagður hlutur, sem er á flestra færi (þó ekki alveg allra) eins og brjóstagjöf geti dregið verulega úr líkum offitum. Eftir miklu er að slægjast og eru þetta enn ein rök fyrir því að hvetja nýbakaðar mæður til að gefa börnum sínum brjóst ef þess er nokkur kostur.

 

 

Frá landlæknisembættinu