Eru augn(sjónlags)aðgerðir fyrir þig?

Ekki er unnt að svara þessari spurningu að fullu fyrr en eftir nákvæma augnskoðun þar sem eftirfarandi er skoðað og skráð:

Aldur
Sjúkrasaga
Meðganga/brjóstagjöf
Lyf
Augnsaga (breytingar á sjónlagi,
nærsýni, fjarsýni, sjónskekkja o.s.frv.)
Sjón með og án gleraugna
Stærð sjáaldra, í myrkri/ljósi
Augnþrýstingur
Augnlok
Slímhimna
Hornhimna, skoðun, flatar- og þykktarmæling
Forhólf
Lithimna
Sjáaldur
Augasteinn
Glerhlaup
Sjónhimna eftir útvíkkun sjáaldurs
Sjóntaug
  • Einstaklingar þurfa að vera orðnir 18 ára gamlir
  • Sjónlag þarf að vera orðið stöðugt (þ.e. sama gleraugnaresept í a.m.k. 2 ár)
  • Konur sem eru barnshafandi eða með barn á brjósti geta ekki gengist undir LASIK
  • Sjúklingar með vissa hornhimnusjúkdóma, svo sem keiluglæru (keratoconus), sögu um herpes sjúkdóm í augum, geta ekki gengist undir LASIK
  • Einstaklingar með vissa bandvefssjúkdóma, svo sem rauða úlfa (lupus erythematosus), scleroderma, dermatomyositis og liðagigt (rheumatoid arthritis) geta ekki gengist undir LASIK
  • Einstaklingar sem taka lyfin Cordarone (Amiodaron) eða Accutan (Roaccutane) ættu ekki að gangast undir LASIK

NOKKUR ORÐ TIL SNERTILINSUNOTENDA

Snertilinsur hafa náð töluverðum vinsældum á Íslandi. Ekki er óalgengt að fólk sem finnst orðið óþægilegt að vera með linsur, t.d. vegna augnþurrks, íþrótta eða annarra orsaka, vilji kanna hvort LASIK eða PRK væri heppilegur valkostur fyrir það.

Þar sem snertilinsur geta breytt lögun hornhimnunnar mælum við með:

1. Ekki nota mjúkar snertilinsur í tvær vikur fyrir fyrstu skoðun.

2. Ekki nota harðar snertilinsur í einn mánuð fyrir fyrstu skoðun. Bættu við einum mánuði fyrir hvern áratug sem þú hefur verið með harðar snertilinsur.

MIKILVÆGT: Fólk eldra en 35 ára sem þarf ekki á lesgleraugum að halda við lestur, gæti þurft þess eftir sjónlagsaðgerð. Lítill hluti fólks sem gengst undir sjónlagsaðgerð þarf á gleraugum að halda við vissar aðstæður.

ENN OG AFTUR: Ellifjarsýni er EKKI læknanleg með LASIK, þar sem ellifjarsýni orsakast af hörðnun á augasteininum, en er ekki vegna hornhimnugalla. Fólk þarf því oftast áfram að nota lesgleraugu, nema ef stefnt er að SKIPTISJÓN, þar sem annað augað er lagfært þannig að það sjái vel í fjarska, en hitt augað er lagfært þannig að það sjái vel nærri sér, þ.e. fólk sér í fjarska með öðru auga en skiptir síðan yfir á hitt augað þegar það les.

Vefur Sjónlags, lasik.is