Feitur eða bara vel í skinn komið?

Feitur eða bara þriflegur?

Margir þeirra sem telja sig vera of feita eru það í raun ekki ef málið er skoðað af sjónarhóli heilsufræðinnar. Á hinn bóginn telja margir, einkum karlmenn, að „varadekkið“ sem þeir hafa um miðjuna geri þá bara stæðilegri á velli – en í raun og veru getur örlítil ístra aukið talsvert hættuna á því að eigandinn fái einhvern offitusjúkdóm.

Hvenær verða umframkílóin hættuleg?

Yfirvigt og offita hefur ekki bara sálræn óþægindi í för með sér fyrir þann sem við slíkan vanda glímir. Of mikil fita í líkamanum eykur einnig hættuna á ýmsum sjúkdómum, svo sem sykursýki sem ekki er háð insúlíni (fullorðinssykursýki), hjarta- og æðasjúkdómum, gallblöðrusjúkdómum, slitgigt og krabbameini. Einkum er það fita á maganum sem er hættuleg. Fita sem situr á milli þarmanna er hættulegri en fita sem liggur undir húðinni. Karlmenn með ístru og strengda húð á maganum eru gott dæmi um
hættulegustu tegund offitu.

Fita sem situr djúpt inni í maganum heldur uppi stöðugri fitusýruárás á lifrina sem sendir sýrurnar áfram í hringferð um líkamann þar sem þær valda skaða. Fita undir húðinni er aftur á móti ekki eins virk og hefur ekki sömu skaðlegu áhrifin á líkamann. Það er auðvelt að sjá fyrir sér karlmann með framsetta ístru eins og hann sé óléttur. Slíkur maður er oft með granna handleggi og fótleggi svo heildarþyngd hans þarf ekki að vera sérlega mikil. En þetta er samt hættulegasta tegund yfirvigtar og sýnir glöggt hversu miklu máli skiptir að líta á hvorttveggja, heildarþyngdina og það hvernig fituforðabúrin dreifast um líkamann.

Feitlagin kona með kvenlegar línur í líkamanum þarf hins vegar að þyngjast æði mikið áður en fitan fer að verða hættuleg heilsufari hennar.

Hvernig reikna ég út hvort ég er of þungur?

Líkamsþyngdarstuðull (LÞS) – Body Mass Index (BMI)

LÞS er hægt að nota til að ákvarða hversu mikil yfirvigtin er. Formúlan fyrir þessum stuðli er þyngdin í kílóum deilt með hæð (í metrum) í öðru veldi.

Manneskja sem er 1,70 á hæð og vegur 70 kg er með LÞS upp á 24,2 (70 deilt með (1,7×1,7) ; 70/2,89 = 24,2).

LÞS á bilinu 18,5-25 telst vera kjörþyngd eða eðlileg þyngd. Mörkin milli kjörþyngdar og ofþyngdar eru við LÞS 25 sem þýðir að ef þú hefur LÞS yfir 25 þá ertu of þungur og þarft að grenna þig. LÞS upp að 30 er skilgreint sem hófleg yfirvigt eða ofþyngd en manneskja með LÞS yfir 30 telst of feit í skilningi læknisfræðinnar.

Hættan á að fá sjúkdóma sem tengjast offitu eykst eftir að LÞS nær 25 svo heilsusamlegast er að hafa LÞS á bilinu 18,5-25. Sé LÞS undir 18,5 eykst hættan á öðrum sjúkdómum, meðal annars vegna þess að líkamsmassinn verður of lítill.

Mittis- og mjaðmamál skilur í sundur epla- og perufólk

Af ástæðum sem tengjast hormónaflæðinu er fitudreifing kvenna í heildina litið heilbrigðari en hjá körlunum – þær eru oftar perulaga í vextinum á meðan karlarnir eru eins og epli í laginu. En hluti fitunnar hjá of feitum konum safnast einnig á hættulega staðinn inn á milli þarmanna og eftir því sem þær verða þyngri verður sú geymsla fyrirferðarmeiri. Sumar konur hafa líka meiri tilhneigingu til að safna fitunni milli þarmanna en aðrar. Þú getur gengið úr skugga um hvort þú hneigist frekar í átt að eplinu eða perunni með því að reikna út hlutfallið á milli mittismáls og mjaðmamáls. Þetta er nefnt mittis/mjaðmahlutfallið. Karlmenn með þetta hlutfall yfir 1,0 og konur með hlutfall ofan við 0,8 teljast til eplafólksins.

Hægt er að mæla eingöngu mittismálið þar sem það segir sína sögu bæði um heildarþyngdina og umfang fitugeymslunnar í maganum. Þess vegna er mittismálið einfaldur og góður mælikvarði á hættuna á því að fá offitusjúkdóm. Mittismál kvenna ætti að vera innan við 80 sm en karla undir 94 sm. Sé mittismálið á bilinu 80-88 sm hjá konum og á bilinu 94-102 hjá körlum telst sjúkdómshættan hóflega aukin en mjög aukin ef mittismálið er meira. Tóbaks- og áfengisneysla, streita og lífsstíll sem einkennist af lítilli hreyfingu ýtir undir þá tilhneigingu að fitan safnist saman á hættulegum stöðum.

Greinin var uppfærð 1.apríl 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar