Flutningur slasaðra

Grundvallarreglan er sú að hreyfa ekki mikið slasaðan eða sjúkan einstakling úr stað nema öryggi hans sé ógnað.

Við flutning slasaðra þarf að gæta sérstakrar varúðar, skorða skaddaða líkamshluta og styðja vel við höfuð og háls. Aðalhættan við það að færa slasað fólk til er möguleikinn á að gera háls- og/eða hryggáverka verri. Liggi fólkið á gólfinu eða jörðinni má draga það burt, í lengdarstefnu líkamans til að vernda mænuna eins og kostur er.

Aðeins á að færa slasaða eða sjúka úr stað ef:
• Eldur er laus eða hætta er á að eldur brjótist út.
• Sprengiefni eða önnur hættuleg efni eru á staðnum.
• Ómögulegt er að verja slysstaðinn gagnvart hættum.
• Ómögulegt er að komast að öðrum slösuðum (til dæmis í bíl) sem þurfa lífsnauðsynlega á aðstoð að halda.
• Sá slasaði þarf að komast í skjól meðan beðið er eftir sjúkrabíl.
 
Fólk í hjartastoppi er venjulega fært úr stað nema það liggi á jörðinni því ef veita á hjartahnoð verður sjúklingurinn að liggja á sléttu og hörðu yfirborði.

Einn við flutning
1. Eins manns stuðningur, einn hjálpar hinum slasaða að ganga. Ef aðeins annar fóturinn er skaddaður má hjálpa hinum slasaða að ganga með því að styðja hann þeim megin sem særði fóturinn er.
2. Bóndabeygja. Má nota á börn og létt fullorðið fólk sem ekki getur gengið.
3. Brunamannatak. Ef meiðsl hins slasaða leyfa má bera hann lengur en ella á herðum sér.
4. Pokaburður. Leyfi meiðslin ekki brunamannatak er þessi aðferð heppileg til lengri burðar.
5. Hestbak. Þessa aðferð má nota ef hinn slasaði getur ekki gengið en þó haldið sér í björgunarmann.

Tveir eða fleiri við flutning
1. Tveir aðstoða. Svipað og þegar einn styður.
2. Tvíhentur gullstóll.
3. Ferhentur gullstóll. Auðveldasta tveggja manna takið þegar enginn búnaður er fyrir hendi og hinn slasaði getur ekki gengið en þó haldið sér í björgunarmennina.
4. Tveggja manna tak.
5. Stólburður. Gott í mjóum göngum eða upp og niður stiga. Nota verður svo sterkan stól að hann þoli þunga hins slasaða.
6. Fangaburður. Þrír til sex standa til hliðar báðum megin við hinn slasaða og taka saman höndum undir honum. Sá sem stendur einn öðrum megin tekur í vinstri hönd annars hjálparmannsins á móti en í hægri hönd hins. Þannig dreifist þunginn best og stöðugleikinn er jafnframt mestur.

Myndirnar sýna hvernig flytja má lítið slasað fólk

     

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands