Foreldrasamningur

Forvarnarverkefni Heimilis og skóla-landssamtaka foreldra

Foreldrasamningur

Heimili og skóli –landssamtök foreldra hafa síðastliðin fimm ár kynnt forvarnarverkefnið Foreldrasamninginn fyrir foreldrum barna í 6-10 bekk grunnskóla. Þar sem verkefnið hefur verið vel kynnt og góð samstaða foreldra hefur náðst um Foreldrasamninginn er það er samdóma álit allra sem að hafa komið, að samningurinn skili óumdeilanlega góðum árangri.

Þeir sem eru í uppreisn við ríkjandi gildi í þjóðfélaginu láta oft mest til sín heyra. Foreldrasamningurinn er kjörið mótvægi við slíkar raddir. Okkar reynsla hjá Heimili og skóla er sú að úti í þjóðfélaginu er stærsti hluti foreldra fylgjandi því að halda vel utan um börnin sín, veita þeim væntumþykju og sýna þeim virðingu. Þeir foreldrar fylkja sér um Foreldrasamninginn þar sem hann veitir þeim samtakamátt og styður þau gildi sem þeir telja börnum sínum fyrir bestu. Þannig sameinar Foreldrasamningurinn þau gildi sem þessir foreldrar telja mikilvæg, svo sem að virða útivistartíma, verja börn með því að hafa einhvern ábyrgan til staðar ef þau fá að halda partí, kaupa ekki fyrir börn og unglinga áfengi eða önnur vímuefni. Láta sig varða vitneskju um neyslu síns barns og annarra barna og koma slíkum upplýsingum á framfæri við rétta aðila. Foreldrar sem vilja verja börnin sín og styðja á leið þeirra til manns fagna því að fá frá öðrum foreldrum sem eru sama sinnis styrk í formi Foreldrasamningsins.

Hugmyndafræðin á bak við Foreldrasamninginn er sú, að útivist barna og unglinga í 6.-10. bekk grunnskóla fram yfir lögboðinn útivistartíma og umburðarlyndi samfélagsins gagnvart áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga sé meðal stærstu þröskulda í vímuvarnarstarfi hérlendis. Þannig að breyting á viðhorfum foreldra og samfélagsins í heild sé lykillinn að árangri í vímuvarnarstarfi. Líkurnar á viðhorfsbreytingu og minnkuðu umburðarlyndi foreldra og annarra í samfélaginu aukast eftir því sem víðtækari samstaða næst meðal foreldra um aðhald og ákveðnar reglur sem börnum og unglingum eru settar.

Foreldrasamningur skapar vettvang fyrir samstöðu foreldra og stuðlar þannig að þeirri hugarfars- og viðhorfsbreytingu sem samtökin vilja sjá í íslensku þjóðfélagi á komandi árum.

Í mars árið 2000 var Foreldrasamningurinn endurhannaður. Þá gaf Hagkaup hf. andvirði hönnunar, umbrots og prentunar á verkefninu og voru þá prentuð 10 þúsund eintök sem nú eru senn á þrotum. Samtökin leituðu aftur til Hagkaups hf. og hefur fyrirtækið samþykkt að standa straum af kostnaði við endurprentun verkefnisins.

Markmið samtakanna með verkefninu er að ná til foreldra allra barna í þeim árgöngum sem samningurinn er ætlaður, en reynslan hefur kennt okkur að bekkjarfulltrúar treysta sér oft ekki til að leggja samninginn fyrir. Því leita foreldrar og starfsmenn skólanna til Heimilis og skóla, eftir aðstoð.

Fulltrúar Heimilis og skóla hafa á liðnu hausti mætt á fundi, ýmist til að kynna Foreldrasamninginn eða til að leggja hann fyrir með foreldrafulltrúum í fjölda skóla um allt land.

Forvarnarfulltrúar hafa í auknum mæli sóst eftir Foreldrasamningnum til notkunar við sitt starf og hafa átt fundi með fulltrúum Heimilis og skóla bæði á Reykjavíkursvæðinu og úti á landsbyggðinni. Á þeim fundum hafa forvarnarfulltrúarnir fengið tilsögn í hvernig ná megi góðum árangri þegar samningurinn er lagður fyrir.

Samtökin hafa nú haldið Erindrekanámskeið fyrir hóp fólks alls staðar að af landinu. Erindrekarnir munu í framtíðinni aðstoða samtökin við að kynna Foreldrasamninginn meðal foreldra. Ótaldir skólar hafa fengið samninginn til afnota og lagt hann fyrir upp á eigin spýtur með hjálp bekkjarfulltrúa eða erindreka frá Heimili og skóla.

Við teljum að ein árangursríkasta leið sem við höfum til að vekja vitund foreldra um hættur sem kunna að steðja að börnum þeirra, sé að fá þá til að hittast og ræða málin yfir verkefni sem krefst þeirra þátttöku eins og Foreldrasamningurinn gerir.

Við teljum að þáttur foreldra í forvörnum sé gróflega vanmetinn, og viljum sjá meiri fjármunum veitt til fræðslu foreldra þannig að þeir geti síðan frætt sín börn. Bestu leið til að ná til forelda teljum við fundi þar sem foreldrar barna á svipuðum aldri hittast og skiptast á skoðunum. Jafnframt teljum við að auka þurfi vitund foreldra um mikilvægi foreldrasamstarfs í skólum og utan þeirra.

Er það von okkar að hægt verði að halda Foreldrasamningnum sem árvissu verkefni, en það veltur á því að áfram takist að fjármagna þessa vinnu. Verkefnið hefur notið styrkja úr Forvarnarsjóði og af fjárlögum ríkisins.

Vefur Heimilis og skóla- landssamtaka foreldra barna á grunn- og framhaldsskólastigi, heimiliogskoli.is