Fósturlát/barnmissir

Að missa barnið sitt er án efa einn erfiðasti atburður lífsins. Eftirvæntingin eftir ófæddu barni er mikil og spennan vex með degi hverjum. Konan sem gengur með barnið finnur alltaf einhverja nýja tilfinningu sem hún deilir með maka sínum.

Því miður er ekki öllum börnum okkar ætluð framtíð í þeim heimi sem við búum í og eins sárt og það er nú, deyja þau frá okkur. Eftir sitjum við með brostið hjarta, tóma vöggu og milljón spurningar sem oft enginn getur svarað. Þessi lífsreynsla er erfið en því miður staðreynd. Staðreynd sem erfitt er að sætta sig við og því mjög erfitt ferli að ganga í gegnum fyrir báða aðila.

Andlega ganga báðir aðilar í gegnum sorgarferli, en mismunandi er hvernig fólk tekst á við það. Konan gengur einnig í gegnum erfiða líkamlega áreynslu eða fæðinguna sem er þó svo mikilvægur hluti af þessu ferli seinna meira. Fólki sem lent hefur í þessari reynslu hefur talað um hversu mikilvægt það er að fá að sjá barnið ef hægt er og fá tíma með því til að kveðja það á sinn hátt. Þetta er mikilvægt fyrir vinnslu sorgarferlisins seinna. Það er gott að geta talað við einhvern náinn eða jafnvel einhvern hlutlausan sem veitir huggun og það er gott að geta tala mikið um tilfinningar sínar þegar maður lendir í þessari lífreynslu.

Sorgarferlið tekur sinn tíma og misjafnt er hversu lengi hver og einn er að takast á við sorgina. Að jafnaði tekur þó mesta sorgin um eitt ár. Í kjölfar áfalls getur þunglyndi gert vart við sig en til að reyna að koma í veg fyrir þunglyndi er mikilvægt að fá sérfræðihjálp hjá sálfræðingi, geðlækni eða öðrum fagaðila. Það er alltaf gott að tjá sig um missinn, sorgina og tilfinningar sínar á svona stundum þ.e.a.s að takast á við sorgina og vinna að því að láta sér batna.

Sérstaklega er mikilvægt að makarnir tali og syrgi saman og sýni samhug en áfellist ekki hvort annað. Það er því mikilvægt að eiga góða að og mikilvægt að allir séu í stakk búnir að hjálpa til við að taka á málunum og ræða þau. Árlega lenda á milli 40-60 foreldrar í þessari erfiðu lífsreynslu og ekki má gleyma öfum og ömmum og systkinum, en þeirra missir er líka mikill.

Ráð til aðstandenda

Það er að sjálfsögðu erfitt að segja til um hvernig rétt sé að bregðast við og hvað rétt sé að segja við fólk í þessum tilvikum því, við erum misjöfn að eðlisfari og höfum ólíkar þarfir og skoðanir. Sem aðstandandi er gott að sýna mikinn skilning og umfram allt stuðning við þá sem að eiga um sárt að binda vegna barnmissis. Gott er að bjóðast til að passa eldri börnin ef þau eru einhver. Einnig er gott að bjóðast til að elda fyrir foreldrana sem eru sennilega of dofnir til að hugsa um matargerð. Það versta sem hægt er að gera sem aðstandandi er að láta eins og ekkert hafi gerst og tala ekkert um missinn.

Þegar barn fæðist finna foreldrarnir fyrir stolti svipað og við eðlilega fæðingu þegar þau halda á barni sínu þrátt fyrir að það sé dáið. Þau bjuggu þennan litla einstakling til, þennan litla engil og það verður ekki tekið af þeim. Það er einnig mikilvægt að einstaklingum sé gefinn tími til að syrgja og að þeir fái að tala um missi sinn eða reynslu sína þegar það hentar. Að hlusta er því mjög mikilvægt.

Ef annað barn fæðist innan fjölskyldunnar stuttu seinna, má alls ekki reyna að fela það eða tala ekki um þá hamingjustund við fólkið sem missti sitt barn því að það gerir bara illt verra. Það finnst öllum mikil hamingjustund vera þegar nýr einstaklingur fæðist. Þá getur verið gott að spyrja hvort þú megir hringja aftur seinna því að fólkinu líður jafn illa í næstu viku og núna og finnst því gott að einhver sé að hugsa um þau þó að svolítill tími sé liðinn frá áfallinu. Gott er að fá send samúðarkort eða blóm með hlýlegum orðum.

Litlir englar

Samtökin litlir englar voru stofnuð 26. Janúar 2002. Þau eru ætluð þeim sem af einhverjum orsökum hafa lent í því að missa börn sín í móðurkviði, í fæðingu eða eftir fæðingu og þeirra sem að standa frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að binda enda á meðgönguna vegna alvarlegs fæðingargalla barns síns. Markmið þessarra samtaka er að miðla af reynslu okkar og hjálpa hvoru öðru á að takast á við sorgina. Einnig munu samtökin veita upplýsingar um ýmis málefni varðandi fósturlát/barnmissi og styðja hvort annað í gegnum næstu meðgöngu. Flestöll starfsemin fer í gegnum heimasíðu samtakanna en hún er í vinnslu eins og er. Meðlimir samtakanna hittast á 6 vikna fresti.

Netfang samtakanna er litlirenglar@hotmail.com og heimilisfangið er Búland 29, 108 Reykjavík. Símanúmerið er 868-8691.

Fjárframlög eru vel þegin og er reikningsnúmer samtakanna 0323-13-168572 og kennitala 650102-4870.