Fróðleikur um blóð

Hér eru upplýsingar um þá þætti sem mynda blóðvefinn. Annars vegar er um að ræða frumur (rauðkorn, hvítkorn og blóðflögur) og hins vegar blóðvökvann sem þær lifa í.

Efnisyfirlit

Blóðmyndun:

Blóðmyndun hefst fljótlega í fósturþroskanum í líffæri sem kallast nestispoki (yolk sac). Nestispokinn gegnir sambærilegu hlutverki fyrir okkur og eggjarauða fyrir fuglsunga í eggi. Frá 6. viku til 6.-7. mánuðar færist blóðmyndun yfir í lifur og milta. Eftir það verður blóðmyndun nær eingöngu í beinmerg. Fyrst í stað er hún í nánast öllum beinum en verður síðan aðallega í stærstu beinum líkamans.

Hvaðan koma blóðfrumurnar?

Allar frumugerðir blóðsins þ.m.t. blóðflögur eru runnar af sérstakri gerð frumna sem kallast stofnfrumur. Stofnfrumurnar eiga sér aðsetur í beinmerg og mynda blóðfrumur í samræmi við þarfir líkamans.

Stofnfrumur hafa lengi verið notaðar í lækningaskyni t.d. í meðferð við hvítblæði þar sem offjölgun hefur orðið á gölluðum hvítfrumum. Sjúklingurinn hefur þá fengið nýjar stofnfrumur t.d. úr beinmerg annars einstaklings. Stofnfrumurnar mynda síðan nýjar og heilbrigðar blóðfrumur.

Rauðkorn

Rauð blóðkorn eru ekki stór. Þvermál þeirra er 8 µm (8 milljónustu úr metra). Þau er disklaga og bygging gerir það hinsvegar að verkum að þau geta komist í gegnum 3,5 µm æðar, en minnstu æðar líkamans, háræðarnar, eru einmitt svo þröngar. Aðalhlutverk rauðra blóðkorna er að flytja súrefni frá lungum til vefja líkamans og koldíoxíð frá vefjum til lungna.

Hvítkorn

Hvítfrumum má skipta í tvo megin flokka, eitilfrumur og átfrumur

Hvítfrumurnar vernda okkur gegn ýmsum sýklum eins og bakteríum og veirum. Þar eru eitilfrumurnar mikilvægastar því þær hafa mjög sértæka virkni gegn sýklum meðan átfrumurnar eru ekki eins vandlátar.

Eitilfrumur eru af tveim megin gerðum:

B-frumur.
T-frumur.
B-frumur mynda mótefni gegn sýklum sem finnast í blóðvökva. Mótefnin eru afar sértæk og bindast aðeins þeim þætti sem þau eru framleidd gegn.

T-frumur hafa m.a. það hlutverk að ræsa B-frumur en einnig eru þær mikilvægar í að uppræta sýkla sem eru innan frumu. T-frumur geta t.d. fundið veirusýktar frumur og drepið þær.

Átfrumur hirða upp (éta) ýmsan úrgang sem til fellur við störf eitilfrumnanna en einnig frumuleifar sem orðið hafa til við „eðlilegan“ frumudauða. Einnig geta átfrumur upp á sitt einsdæmi étið sýkla, aðallega bakteríur og sníkjudýr .

Blóðflögur

Blóðflögur eru myndaðar í beinmerg af frumum sem kallast megakaryocytar. Það gerist á þann hátt að fjölföldun verður á kjörnum megakaryocyta, umfrymi þeirra verður kornótt og myndar anga sem blóðflögur brotna frá. Á endanum stendur ekkert eftir nema kjarninn. Megakaryocyte fruma getur myndað frá 2000-4000 blóðflögur úr umfrymi sínu. Blóðflögur eru ekki eiginlegar frumur í ströngustu merkingu þess orðs. Þær hafa engan kjarna og þ.a.l. ekkert erfðaefni (DNA) en þær hafa hinsvegar ýmis önnur líffæri sem frumur hafa. Blóðflögur eru afar smáar. Þvermál þeirra er u.þ.b. 3,6 µm en þykktin 0,9 µm. Líftími þeirra er frá 9-12 dagar.

Meginhlutverk blóðflagna, í samvinnu við storkuþætti í blóðvatni, er að stöðva blóðflæði þegar skemmdir verða á æðum. Blóðflögurnar streyma að skemmdinni, loða hver við aðra og mynda í raun tappa í sárinu.

Blóðvökvi

Blóðvökvinn inniheldur fyrst og fremst vatn en einnig hlaðin atóm s.k. jónir t.d. kalíum, natríum og klóríð og ýmis prótein t.d. mótefni og storkuþætti.

Byggt á efni frá  Blóðbankanum  www.blodbankinn.is

Höfundur greinar