Gyllinæð

Gyllinæð er þrútin bláæð (æðahnútur) í endaþarmi eða endaþarmsopi og finnst sem þykkildi. Bæði er til innri og ytri gyllinæð. Innri gyllinæð er inni í endaþarminum undir þekju endaþarmsopsins. Ef hún rifnar blæðir úr endaþarmsopinu en slíkt gerist iðulega við hægðir. Ytri gyllinæð er í húðinni nálægt endaþarmsopinu og blæðir úr henni ef æðin rofnar.

Einkenni

Blæðing er algengasti fylgikvilli gyllinæðar en önnur einkenni geta verið kláði og sársauki í endaþarmi, fyrirferð eða hnútur í eða við endaþarm, tilfinning um að endaþarmur sé fullur og þörf á losun og í einstaka tilfellum getur myndast blóðtappi úr æðahnútnum.

Hverjir fá gyllinæð?

Gyllinæð er mjög algengur sjúkdómur og er talið að allt að annar hver maður finni fyrir þessum kvilla einhvern tímann á ævinni. Gyllinæð stafar í flestum tilfellum af auknum þrýstingi af völdum áreynslu á meðgöngu eða vegna harðlífis. Fyrir utan ófrískar konur eru helstu áhættuhópar þeir sem eru of þungir, þeir sem standa langtímum saman, þeir sem lyfta oft þungum hlutum og þeir sem hafa fjölskyldusögu um gyllinæð.

Meðferð

Regluleg og áreynslulaus hægðalosun  og mjúkar hægðir eru lykilatriði í því að halda einkennum niðri. Hægðatregða er helsti óvinur gyllinæðar ásamt rembingi og mikilli kyrrsetu. Því þarf oft ða nota hægðalyf á meðan verið er að lagfæra hægðavenjur.

Til eru ýmsar gerðir áburða sem notaðir eru og innihalda þeir gjarnan jurtalyf. Áburðurinn eða kremið er borið á gyllinæðina með bómullarpinna eða sprautað í endaþarminn úr túpu með plaststaut. Kremin kæla og sefa með því að draga úr kláða, þau draga úr bólgum og flýta þannig fyrir gróanda auk þess sem þau auka blóðflæði á svæðið og flýta þannig fyrir viðgerð á vefjum. Ennfremur hafa þau smureiginleika sem auðveldar hægðir.

Suma æðahnúta er hægt að fjarlægja með því að smeygja litlu teygjubandi utan um botn æðahnútsins. Við þetta deyr vefurinn þar sem blóðflæði í hnútinn er stöðvað. Minni æðahnúta er einnig hægt að fjarlægja með því að sprauta í þá hersluefni sem hefur sambærileg áhrif og teygjan.
Aðeins er mælt með skurðaðgerð við gyllinæð þegar önnur meðferð  hefur verið fullreynd án þess að þrálátur kláði, blettun frá endaþarmi, sársauki, blóðtappar og sýking hafi horfið að fullu. Tvenns konar skuðaðgerðir eru til. Annars vegar er hefðbundin skurðaðgerð með skurðhnífi og hins vegar skurðaðgerð með leysigeisla. Sjúklingi er annað hvort gefið róandi lyf og stað- eða mænudeyfing eða hann er svæfður, æðahnúturinn er fjarlægður og þrýstigrisja sett á skurðstað til að draga úr blæðingu.

Greinin var uppfærð 30.apríl 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar