Hefurðu látið kíkja á þína sykurklukku nýlega?

Sennilega eru nær allir með það á hreinu, núorðið, að sykur skemmir tennurnar. Svo mikið og víða hefur verið hamrað á því í gegnum tíðina. Ekki er ég samt viss um að allir geri sér grein fyrir því að það er ekki sykurmagnið sem öllu skiptir þar, heldur það hve oft sykursins er neytt. Þetta sýna sykurklukkurnar hér að ofan glögglega.

Í okkar sykurhúðaða samfélagi er það svo að tannáta (tannskemmdir) er langalgengust allra sjúkdóma. Tannáta er sannkallaður menningarsjúkdómur, því hún er bein afleiðing þeirrar neyslumenningar sem við ástundum –og þar er úr nægum freistandi tilboðum að velja og virðist ekkert lát á. Það er því sótt fast að íslenskum tönnum.

„Stöðvum sýruárásir á tennurnar okkar“

Einhvern veginn svona hljóma kunnugleg slagorð úr þekktri sjónvarpsauglýsingu og skal tekið undir þau hér. En hvað er eiginlega verið að meina með þessu? Er það ekki sykur sem skemmir tennur? Skal þetta nú skýrt nánar.

Þótt tennur séu burstaðar vandlega vex fljótlega á þeim svonefnd tannsýkla. Þetta er skán samsett úr milljörðum sýkla og límefni er þeir framleiða úr sykri sem festir þá við tennurnar okkar. Þessir sýklar eru sníklar er vinna aðeins tjón en aldrei gagn.

Ófögnuður þessi byggir afkomu sína á sykri, án hans fær sýklan ekki þrifist. Einu gildir hvaðan sykurinn kemur eða hvort hann er „lífrænn“ eða ekki, tannsýklan er ekki kröfuhörð í því tilliti. Sykurinn er sýklunum fæða, úr honum vinna þeir orku sér til viðurværis. Við þá vinnslu brjóta þeir sykurinn niður í lífrænar sýrur. Þessar sýrur safnast fyrir í tannsýklunni, sem varnar því að munnvatnið nái að skola þeim burt. Eftir hvert sinn sem sykurs er neytt varir slík árás um 30 mínútur, jafnvel lengur ef einhver seig sætindi, svo sem karamella, sitja eftir á tönnunum. Fari magn sýrunnar yfir ákveðin mörk tekur hún hreinlega að leysa byggingarefni tannanna upp. Tennurnar, sem annars eru langharðasti vefur líkamans, verða linar eins og ostur á þeim stöðum er leysast og á þær koma holur.

Til að tönn taki að skemmast þarf semsé þrennt: Sykur, sýkla og tíma til skemmdarverka, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Fjarlægi eigandi tannarinnar annað hvort sykurinn eða sýklana út úr myndinni skemmist tönnin ekki – svo einfalt er það.Tennur hafa þá sérstöðu meðal okkar ytri líkamsparta að á þær koma holur ef þær eru ekki þrifnar. Önnur sérstaða tannanna gerir þetta sérlega bagalegt, þær gróa nefnilega ekki sára sinna af sjálfsdáðum eins og aðrir lifandi vefir líkamans. ( Þakka ber að þetta á ekki við um fleiri líkamsparta en tennurnar!) Þessi skortur tannvefjarins á hæfileikanum til að endurmyndast gerir tannlækna að þeirri illu nauðsyn sem þeir vissulega eru.

Tannlæknar heyra oft þau sem í stólinn koma tala um að þau séu með svo „ónýtar“ tennur. Vissulega hafa einstaklingarnir missterkar varnir fyrir áðurnefndum sýruárásum og þar með tannátu. Það breytir samt ekki því, að ef enginn er sykurinn eða sýkillinn þá skemmast tennurnar ekki –það er alveg ljóst. Því geta allir þeir sem þjást af tíðum tannskemmdum hæglega snarstöðvað myndun tannátu með bættri munnhirðu og breyttu mataræði.

Hollráð til varnar sýruárásum

1. Burstið tennurnar allar vel a.m.k. kvölds og morgna. Helst með flúortannkremi en flúor gerir tennurnar þolnari gegn sýruárásum.

2. Notið tannþráð á hverju kvöldi. Besta tannburstun nær aðeins að hreinsa 3 fleti hverrar tannar af 5. Þeir 2 fletir sem snúa að næstu tönn eru óaðgengilegir öðrum tannhreinsitólum en tannþræði. Algengt er að tannáta stingi sér niður þar.

3. Haldið sykurneyslu í lágmarki og munið að jafn mikið situr eftir á tönnunum hvort sem sætindabitinn var stór eða smár. Sú stefna að takmarka sætindaneysluna við ákveðna „nammidaga“ er ákaflega tannvæn.

4. Látið athuga tennurnar reglulega hjá tannlækni. Eftirlit á 6-12 mánaða fresti er hæfilegt fyrir flesta. Tannlæknirinn sér í skjótri svipan hvernig þín sykurklukka lítur út.

5. Notið tannhreinsityggigúmmí. Þau hafa rutt sér til rúms á síðustu árum og eru eru ágætlega til þess fallin að verja tennurnar sýruárásum í hita og þunga dagsins, þegar fólk er í önnum og telur sig ekki hafa tíma til að bursta tennurnar sínar. Gagnsemi þessara „tyggjóa“ er einkum af tvennum toga; Í fyrsta lagi innihalda þau, í stað sykurs, dísæta sykuralkóhóla sem beinlínis eyða sýrunni. Í öðru lagi örva þau framleiðslu munnvatns og streymi þess um tennurnar, en munnvatn inniheldur náttúruleg, öflug sýrueyðandi efni.

Börnin

Börn eru besta fólk og eiga gott eitt skilið. Burstum því sjálf tennur barna okkar á hverju kvöldi a.m.k. fram til 8 ára aldurs, en höfum hönd í bagga eftir það. Þótt þau maldi í móinn, sum hver, er leikur einn að ná samvinnu þeirra með ákveðni og lagni. Þau sætta sig öll við það að tannburstun sé eðlilegu r hluti af því ferli að koma sér í háttinn, rétt eins og hand- og andlitsþvottur. Öruggt er að fá verk skila meiri árangri en slík tannburstun miðað við þá vinnu sem leggja þarf í hana. Enda mun fullsannað að: „HREINAR TENNUR SKEMMAST EKKI“.

Höfundur er tannlæknir í Reykjavík.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is