Heilbrigðisstarfsmenn og tóbaksvarnir

Þann 31. maí ár hvert er haldinn Alþjóðlegur reyklaus dagur til að minna á skaðsemi tóbaknotkunar og hvetja þá sem nota tóbak til að nýta sér þennan dag til að hætta. Ár hvert gefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) út þema fyrir árið og er þemað í ár heilbrigðisstarfsmenn og tóbaksvarnir (health professionals and tobacco control). Þemað útfærir svo hvert land á sinn hátt.

Mig langar að hvetja bæði heilbrigðisstarfsmenn og almenning til að nýta sér þema dagsins og ársins til að breyta hegðun sinni, láta sig tóbaksvarnir varða og jafnvel hætta að reykja.

Ágæti heilbrigðisstarfsmaður

 

Í tilefni þema reyklausa dagsins í ár langar mig að minna þig á að þú og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eruð mjög mikilvægir í tóbaksvörnum. Heilbrigðisstarfsmenn geta haft áhrif á lífstíl fólks, þeir eru í lykilstöðu til að veita ráðgjöf og stuðning til þeirra sem nota tóbak, hjálpa fólki að hætta tóbaksnotkun og til að beita virkum forvörnum á þessu sviði. Einnig eru heilbrigðisstarfsmenn mikilvæg fyrirmynd heilbrigðs lífstíls.

Heilbrigðisstarfsmenn sem ættu og eru í aðstöðu til að sinna tóbaksvörnum eru til að mynda læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, tannlæknar, tannfræðingar og lyfjafræðingar.

Læknar eru mjög mikilvægir þar sem margir taka einna mest mark á ráðum þeirra hvað varðar heilsutengd málefni, þeir hitta marga í starfi sínu og ekki síst fólk með sjúkdóma tengda tóbaksnotkun.

Hjúkrunarfræðingar eru fjölmargir og hitta því mikinn fjölda fólks á degi hverjum. Í krafti fjöldans, oft mikillar hæfni í tóbaksvörnum og samskiptum eru hjúkrunarfræðingar afar mikilvægir í tóbaksvörnum.

Ljósmæður hitta mikinn fjölda fólks á barneignaaldri sem er hópur sem mikilvægt er að upplýsa um skaðsemi reykinga fyrir þau sjálf og börnin þeirra og hversu mikilvægar fyrirmyndir þau eru sem foreldrar.

Tannlæknar. Afleiðingar tóbaksnotkunar eru hvað fyrst sjáanlegar í munni. Tennur gulna, tannsteinsmyndun eykst og tannbein rýrna. Sökum þessa eru tannlæknar og tannfræðingar í mjög góðri og mikilvægri stöðu til að fjalla um tóbaksnotkun við skjólstæðinga sína.

Lyfjafræðingar. Mörgu fólki hefur reynst vel að nota nikótínlyf eða nikótínlaus lyf til að hætta tóbaksnotkun og eru lyfjafræðingar því mikilvægir í að ráðleggja um notkun slíkra lyfja og hvað ber að varast.

Nokkuð er um að heilbrigðisstarfsmönnum finnist þeir ekki í stakk búnir til að veita ráðleggingar til reykleysis. Ef heilbrigðsstarfsmenn tileinka sér eftirfarandi atriði verða þeir virkir í tóbaksvörnum og er það það sem mestu máli skiptir:

· Gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji tóbaksnotkun

· Spurðu um tóbaksnotkun við hvert tækifæri og bjóddu upplýsingar

· Ráðleggðu öllum reykingamönnum að hætta að reykja

· Aðstoðaðu reykingamenn við að hætta eða bentu á einhvern sem getur aðstoðað

Ef þú vilt meiri upplýsingar um hlutverk heilbrigðisstarfsmanna í tóbaksvörnum eða hvernig þú getur beitt þér eru mjög góðar upplýsingar á vef Alþjóða heilbrigðissmálastofnunarinnar (WHO): www.euro.who.int/tobaccofree

 

Ágæti reykingamaður

 

All nokkuð er um að fólk noti reyklausa daginn til að hætta tóbaksnotkun. Þú ættir að íhuga að nýta þér reyklausa dag þessa árs þann 31. maí til að hætta. Hér á eftir koma nokkur ráð sem geta vonandi auðveldað þeim sem vilja nýta daginn að hætta að reykja og að halda reykleysið út.

Gott er að búa sig vel undir það að hætta að reykja. Hér á eftir koma nokkur góð ráð um hvernig er hægt að undirbúa sig:

1) Gott er að skrifa niður nokkrar ástæður fyrir því að þig langi að hætta

2) Veldu þér dag til að hætta og stattu við hann

3) Gott er að vita hvar hægt er að fá stuðning, ef þörf er á, áður en dagurinn rennur upp

4) Láttu fjölskyldu og vini vita að þú sért að hætta og óskaðu eftir aðstoð þeirra

5) Skipuleggðu þig til að koma í veg fyrir streituvaldandi aðstæður

6) Reiknaðu hvað reykingarnar þínar kosta þig og hugsaðu um hvað þú ætlar að gera fyrir peningana í staðinn

Að hætta

 

Sumir treysta sér alveg til að hætta upp á eigin spýtur en aðrir telja sig þurfa stuðning. Heilbrigðisstarfsmenn mjög víða geta aðstoðað þig. Í síma 800 6030 er til að mynda hægt að fá ókeypis persónulega ráðgjöf frá sérþjálfuðum hjúkrunarfræðingum, Krabbameinsfélagið í Reykjavík býður bæði upp á hópnámskeið og einstaklingsviðtöl og heimilislæknar og hjúkrunarfræðingar á heilsugæslum geta veitt aðstoð.

Mikilvægt er að hafa hugfast af hverju við hættum að reykja, forðast fyrst um sinn aðstæður sem auka líkurnar á reykingum og finna okkur eitthvað annað að gera. Gott er að temja sér að hugsa um sjálfan sig sem manneskju sem ekki reykir frekar en einhvern sem er að reyna að hætta.

Að halda út

 

Að halda sér reyklausum er breyting á lífstíl og getur tekið á en er langt frá því að vera ómögulegt. Mikilvægt er að hugsa um allar jákvæðu afleiðingar þess að hætta bæði fyrir þig og þá sem þú elskar. Blóðflæði þitt eykst t.d. strax á fyrstu 20 mínútunum, súrefnisflæði í blóði eykst eftir 8 klst., eftir 2 daga finnur þú meiri lykt og bragð af mat og eftir 4 daga verður öndun og líkamsrækt auðveldari. Börnin þín öðlast heilbrigðara andrúmsloft og betri fyrirmynd. Það getur verið gott að fá aðstoð við að halda reykbinindið út og geta hjúkrunarfræðingarnir hjá 800 6030 til að mynda aðstoðað þig við það.

Mundu að ef þú freistast til að fá þér eina sígarettu þá er mikilvægt að hugsa ekki að nú sértu fallin heldur minna þig á jákvæðu þættina og halda jákvæðu hugarfari. Verðlaunaðu þig reglulega, vikulega, mánaðarlega eða árlega með peningunum sem þú notaðir áður í sígarettur. Þú átt það skilið.

Hafirðu áhuga á að kynna þér reyklausa daginn betur eða tóbaksvarnir almennt eru frekari upplýsingar að finna á vef Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar www.euro.who.int/tobaccofree og vef Lýðheilsustöðvar www.lydheilsustod.is

Til hamingju með reyklausa daginn