Heilsan á aðventunni

Til að viðhalda heilsunni  og draga úr álagi á aðventunni og  yfir hátíðirnar er  ekki nóg að huga að líkamlegum  þáttum heldur er  líka mikilvægt að huga að andlegum og félagslegum þáttum.

Hér á eftir eru nokkur góð ráð til að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu og gleði yfir hátíðirnar:

1.       Fáðu þér ferskt loft. Því duglegri sem þú ert að hreyfa þig utan dyra því meiri orku færðu. Með því að fara út og fá þér ferskt loft færðu bæði  súrefni fyrir heilann og orku fyrir kroppinn. Farðu út í góða göngu, á skíði eða skauta með börnin og svo er dásamlegt að  fá sér  heitan kakóbolla á eftir.

2.       Fáðu nægan svefn. Nægur svefn er afar mikivægur  því að á meðan við sofum hleður líkaminn sig og byggir meðal annars upp ónæmsikerfið.

3.      Gættu að lýsingunni. Jólin eru jú oft nefnd hátíð ljóssins en þau eru þegar skammdegið er hvað  mest og dagsbirtan af skornum skammmti. Margir kannast við skammdegisþunglyndið og þá er mikilvægt að  tryggja að maður fái eins mikla dagsbirtu og mögulegt er, líka innan dyra. Til eru ljós og perur sem likja eftir dagsbirtu. Þetta mun draga úr streitu og bæta geð.

4.       Gættu að koffín neyslunni: alkunna er að koffín hefur áhrif á streitu og margir þekkja það að koffín truflar svefn.

5.       Gættu að mataræðinu:  Það er allt í lagi  að leyfa sér góðgæti á aðventunni og um jólin en það er ekki endilega nauðsynlegt að borða  alltaf þangað til maður verður afvelta. Það kallar bara á önnur  vandamál eins og meltingartruflanir sem flestir vilja vera án.

6.       Foganggsraðaðu og skipuleggðu þig:  Það er ekki hægt að gera allt og ekki heldur hægt að gera öllum til geðs. Með skipulagningu og forgangsröðun getur þú gert það sem þú telur nauðsynlegt og ekki gleyma að gera líka það sem þig langar til. Settu þér raunhæf markmið og skrifaðu minnislista.

7.       Gerðu það sem þú hefur gaman af: Það er nauðsynlegt  fyrir heilsuna að gefa sjálfum sér tíma, horfa á uppáhaldsþáttinn eða leika við börnin eða hvað annað sem veitir þér gleði og ánægju.

8.       Forðastu árekstra: Aðventan og jólin er sá tími þar sem fjölskyldan hittist og eyðir meiri tíma saman en annars. Elskaðu friðinn og reyndu að láta smátriðin ekki pirra þig. Vertu opin fyrir nýjum hefðum eða leiðum til að viðhalda þeim gömlu. Nýtum okkur boðskap jólanna,  sýnum öðrum kærleik og umburðarlyndi.

Greinin birtist 2.desember 2014 en hefur verið uppfærð

Höfundur greinar