Heilsufarsmat – Áhættumat

Titillinn hljómar kannski svolítið tæknilega en í raun er þetta sáraeinfalt mál. Þú átt að láta fylgjast með heilsu þinni og vera ábyrgur fyrir henni, þú átt ekkert mikilvægara!

Eins og ég sagði hér í pistli fyrir nokkru að „heilsan væri fátækra manna fasteign“  átti ég við einmitt þetta, veraldlegir hlutir skipta ekki miklu máli þegar veikindin banka að dyrum.

Nú eru enn afar skiptar skoðanir um það innan fagstéttanna hverju skuli fylgjast með , á hvaða aldri og  jafnvel hvernig  því sé best háttað og af hverjum.  Sumir taka jafnvel svo djúpt í árinni að segja almennar forvarnir séu farnar að snúast um sjúkdómavæðingu.

Við þekkjum flest frasakenndar fullyrðingar sem leitast við að tryggja okkur einhvern sérstakan ábata af þessari eða hinni meðferðinni ,  matarkúrnum eða ákveðnum tegundum hreyfingar umfram aðra.

Einfalda svarið við flestum þessara fullyrðinga er að meðalhófið er best, og fjölþætt næring í hæfilegu magni ásamt reglubundinni hreyfingu skilar ótrúlega góðum árangri ef maður er þolinmóður og þrautseigur að viðhalda þeirri lífstílsbreytingu sem til þarf.

Það mætti nota orðin tíska og spennufíkn eða nýjungagirni yfir þær ástæður hvers vegna fólk sveiflast úr einu í annað í sinni iðkun. Þetta þarf síður en svo að vera alslæmt, því meira sem maður reynir því sannfærðari er maður um að það er engin „ein pottþétt“ leið sem gildir um að halda sér í formi eða bæta heilsu sína.

En í öllu þessu gleymist ansi oft að það eru ýmsir kvillar og líkamsástand sem ekki er hægt að beinlínis þjálfa eða fasta í burtu, og hugsanlega væri betra að hafa haft einhvers konar stöðumat áður en farið var af stað t.d. í mikla áreynslu eftir kyrrsetu um árabil. Hér á ég við hjarta og æðakerfi, lungu  og stoðkerfi svo aðeins fátt eitt sé nefnt.

Þá er mikilvægt að stefna að aldurstengdu heildstæðu áhættumati einstaklingsins að mínu viti, en það þýðir að einstaklingurinn fær reglubundið stöðumat hvað varðar heilsu sína, áhættuþætti og hefur möguleika á að fylgjast sjálfur með þróun mála. Mikilvægt er að fylgja klínískum leiðbeiningum um slíkt eftir fremsta megni eða beita nýjustu þekkingu á viðfangsefnin hverju sinni en hér er um nýjung að ræða fyrir þá einstaklinga hérlendis  sem slíkt kjósa.

Margir velta fyrir sér kostnaði við slíkt en hann getur verið afar misjafn, eftir aldri, kyni og áhættuþáttum en almenna reglan er sú að þetta er sennilega ódýrara en að fara með bílinn í reglubundna skoðun, burtséð frá því hvaða tegund maður ekur! Þá er vert að minnast á það að til lengri tíma litið sparast gífurlegir fjármunir í rekstri hins almenna heilbrigðiskerfis sem hefur tækifæri til að bregðast við vandamálum fyrr og á skipulagðan hátt.

Undirritaður hefur um nokkurra ára skeið talið að þetta sé skynsamleg nálgun og í löndum í kringum okkur hefur þetta verið hluti af almennri þjónustu um nokkurn tíma.

Öll umræða um forvarnir og heilsueflingu er af hinu góða, en mikilvægt er að reyna að greina á milli þess sem raunverulega skiptir einstaklinginn máli og hins sem er fyrst og fremst tíska eða eitthvað nýtt og spennandi.  Í flestum tilvikum er um að ræða aðferðir án nokkurrar gagnrýnnar skoðunar og rannsókna  með tilliti til árangurs og í versta falli jafnvel verið að vinna einstaklingnum og heilsu hans mein.