Hitaörmögnun

Hitaörmögnun er afleiðing þess að fólk neytir ekki nægilega mikils vökva við vinnu eða íþróttaiðkun í hita. Ef til vill væri réttara að kalla ástandið alvarlegan ofþurrk. Ef ekki er brugðist við hitaörmögnun getur hún þróast í hitaslag.

Hvað sérðu?
Mikill sviti einkennir hitaörmögnun. Líkamshitinn er þó aðeins um eða rétt yfir eðlilegum mörkum. Einkennin eru mikill þorsti, þreyta, höfuðverkur, ógleði, uppköst og jafnvel niðurgangur.

Hvað gerirðu?
• Farðu með einstaklinginn strax úr hitanum og á svalan stað.
• Gefðu honum kaldan vökva (léttsaltaðan eða íþróttadrykk) ef venjulegt vatn bætir ekki ástand hans innan tuttugu mínútna. Ekki gefa salttöflur því þær erta magann og geta valdið ógleði og uppköstum.
• Klæddu viðkomandi úr óþarfa fatnaði.
• Kældu viðkomandi með köldum bakstri og blævæng.
• Lagist ástandið ekki innan hálftíma þarftu að leita læknishjálpar.

 

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands