Hitaslag

Hitaslag er lífshættulegt ástand sem verður að bregðast við strax! Hver mínúta skiptir máli. Hitaslag er ýmist umhverfis- eða áreynslutengt.

Umhverfistengt hitaslag sem sumir kalla „hæga suðu“ getur verið marga daga að þróast. Það er gjarnan fylgifiskur mikils sumarhita og hendir einkum eldra fólk með langvinna sjúkdóma, drykkjusjúklinga og of þungt fólk. Orsökin er samspil hita og ofþurrks. Þeir sem fá umhverfistengt hitaslag eru ekki sveittir.

Áreynslutengt hitaslag gerist í hita hjá alheilbrigðu fólki, einkum íþróttamönnum og þeim sem erfiða mikið og svitna við leik eða störf. Áreynslutengt hitaslag er stundum kallað „hraðsuða“ því að það ber vanalega brátt að. Sjaldnast er um alvarlegan ofþurrk að ræða. Um helmingur þeirra sem fá áreynslutengt hitaslag eru sveittir.

Hvað sérðu?
Greina má milli hitaörmögnunar og hitaslags með ýmsu móti. Ef líkami sjúklingsins er mjög heitur viðkomu er líklega um hitaslag að ræða. Annað einkenni þess er breytt meðvitund (hegðun) allt frá svolitlu rugli yfir í meðvitundarleysi. Viðkomandi getur orðið óskýr í hugsun, æstur og jafnvel árásargjarn. Í alvarlegri tilvikum getur fólk lagst í dá, því lengur sem dáið varir því minni von er til þess að viðkomandi haldi lífi.

Hvað gerirðu?
• Leitaðu strax læknishjálpar, jafnvel þótt viðkomandi virðist vera að jafna sig.
• Farðu strax með einstaklinginn úr hitanum og á svalan stað.
• Klæddu hann úr öllu nema nærfötunum.
• Kældu einstaklinginn fljótt með öllum tiltækum ráðum því það er eina leiðin til að afstýra frekari skaða. Til þess má meðal annars beita eftirtöldum ráðum:

• Úða vatni á viðkomandi og veita svo að honum fersku lofti. Vatnsdroparnir virka þá eins og sviti og kæla líkamann þegar þeir gufa upp. Þessi aðferð virkar vel þar sem lítill raki er (minna en 75%).
• Leggja íspoka, vafinn í blautt handklæði, við stóru æðarnar í nára, handarkrika eða á hálsi. Þessi aðferð er góð til að kæla líkamann í miklum raka (meira en 75%).
• Gefa kaldan vökva ef einstaklingurinn er með meðvitund.

Varúð: Ekki
• Bíða með kælingu á meðan beðið er eftir sjúkrabíl. Ef kæling dregst aukast líkurnar á vefjaskemmdum og sjúkrahússvist.
• Halda kælingunni áfram ef viðkomandi hefur jafnað sig að fullu. Óþarfa kæling getur valdið ofkælingu.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

 

Birt með góðfúslegu Rauða kross Íslands