Hreyfiþroski barna

Það er ekki ólíklegt að ,,klunninn” sem þú varst með í bekk í barnaskóla og var alltaf valinn síðastur í liðið hafi verið með frávik í hreyfiþroska vegna truflunar í miðtaugakerfi. Allt til níunda áratugarins á síðustu öld var sjaldgæft að þessi börn greindust og þau fóru gjarnan í gegnum grunnskólann með það hugarfar að íþróttir væru ömurlegar. Mikið hefur breyst til batnaðar í þessum málum síðustu ár og mun fleiri börn greinast og fá hjálp. Þetta eru ófá börn því talið er að um 2-3 börn í hverjum bekk hér á landi glími við frávik í hreyfingum. Hreyfingar þeirra eru gjarnan klaufalegri en hreyfingar annarra barna og þau eiga erfitt með að fylgja jafnöldrum sínum eftir á leikvellinum. Algengt er að ofvirk börn eða börn með athyglisbrest stríði við hreyfiþroskaröskun en einnig vanvirk börn.

Því fyrr því betra

Björg Guðjónsdóttir sem hefur starfað sem barnasjúkraþjálfari í 20 ár segir að það skorti á eðlilegan hreyfiþroska hjá um 5-12% barna. Það fari eftir því hvaða skilgreiningar séu notaðar hvert hlutfallið sé. ,,Það hafa orðið miklar breytingar í þessum málum á undanförnum árum og fólk er betur vakandi fyrir frávikum en áður. Nú fara börn í þriggja og hálfsársskoðun og fimm og hálfsársskoðun hjá heilsugæslunni þar sem hreyfiþroskinn er m.a. kannaður. Þá eru leikskólakennarar vakandi fyrir frávikum. Börn eru því að greinast fyrr en áður eða á leikskólaaldri. Þó eru alltaf nokkur börn sem greinast síðar. Það er mikilvægt að ná snemma til þessara barna til að búa þau undir skólagönguna sem er stórt stökk. Þetta eru oft klárir krakkar en þeir þurfa rétt umhverfi og rétta þjálfun til að blómstra. Þeim börnum sem greinast með frávik í hreyfiþroska er beint til sjúkraþjálfara sem þjálfa þau í ýmsum daglegum athöfnum, eins og að klæða sig. Þá læra þau gjarnan leiki svo þau verði ekki útundan á skólalóðinni. Þau eru oft illa skipulögð og sparka boltanum t.d. í öfuga átt í fótbolta. Jafnaldrar eru fljótir að gefast upp á að hafa þau með. Með réttri þjálfun er hinsvegar hægt að hjálpa þeim mikið. Áður fyrr var mun algengara að vandinn væri ekki greindur og mörg börn með hreyfiþroskaröskun luku grunnskólanum á þeirri skoðun að hreyfing væri ömurleg. Í dag náum við til mun fleiri barna og þó að þau verði kannski ekki keppnisíþróttamenn geta þau flest lifað eðlilegu lífi með þá skoðun að hreyfing sé góð og nauðsynlegur hluti af lífinu.”

Börnin sem sleppa

Björg segir mun auðveldara að greina röskun í hreyfingum hjá ofvirkum börnum eða börnum með athyglisbrest en hjá vanvirkum börnum. ,,Ofvirk börn eru oft áberandi og það fer ekki framhjá neinum ef eitthvað er að. Ég hef hinsvegar meiri áhyggjur af vanvirku börnunum sem vilja ekki hreyfa sig. Þau geta frekar sloppið í gegnum eftirlitskerfið. Þessi börn eru oftast mjög stillt og kalla ekki á athygli. Þau eru gjarnan dugleg á sínu sviði og fá útrás í að klippa, teikna og perla en standa svo á leikvellinum og horfa á jafnaldrana leika sér eða rölta um í hægðum sínum. Þau eru oft ákaflega róleg sem ungbörn og röskun í hreyfingum uppgötvast sjaldan á þeim tíma.” Björg segir að stór hluti barna með röskun í hreyfingum sé annað hvort ofvirkur eða vanvirkur en vanvirku börnin séu mun færri. ,,Þó kemur fyrir að ég fæ til mín börn með hreyfiþroskaröskun sem eru hvorki ofvirk né vanvirk. Oftast er orsökin truflun í starfsemi heilans en stundum er það vegna þess að börnin fá ekki næga hreyfingu en það er algengara hjá eldri börnum. Því miður hafa kannanir sýnt að börn hreyfa sig of lítið í dag og eyða of miklum tíma fyrir framan tölvu eða sjónvarpskjá. Samfara þessu eru íslensk börn að fitna og við sjáum uggvænlegar tölur um að við færumst sífellt nær Bandaríkjunum í þessum efnum. Þetta er íhugunarefni fyrir foreldra. Það er hins vegar hægt að snúa þessari þróun við. Börn gera það sem fyrir þeim er haft og ef fyrirmyndirnar leggja áherslu á hreyfingu og hollt mataræði skilar það sér beint til barnanna.”

,,Forrit” í heilanum

En hvað er hreyfiþroski og við hvað eigum við að miða þegar hann er kannaður? Björg segir að hreyfiþroski sé ferli þar sem aldurstengdar breytingar verða á hreyfifærni. ,,Í rauninni er hreyfiþroski ferli allt lífið en hann hefur mest verið skoðaður hjá börnum. Á fyrri hluta síðustu aldar var mikill áhugi á hreyfiþroska barna. Fræðimenn rannsökuðu hreyfiþroska af mikilli nákvæmni og um 1940 var þekking á hreyfiþroska talin fullnægjandi. Menn töldu að börn væru óvirkar verur sem fæddust með ,,forrit” sem stjórnaði hreyfigetu þeirra. Rannsóknir á börnum á fyrsta ári sýndu t.d. að þau náðu öll helstu áföngum hreyfiþroskans (velta, sitja, skríða, standa, ganga) í sömu röð. Því var talið að hreyfiþroskaröð væri fyrirfram ákveðin og nokkuð fyrirsjáanleg og áhrif umhverfisins lítil.”

Kerfakenningin um hreyfiþroska

Björg segir að eftir því sem þekking á mannslíkamanum hafi aukist hafi komið fram nýjar hugmyndir þar sem mun meiri áhersla er lögð á samspil líkamskerfa og áhrif umhverfisins. ,,Fyrir 20-25 árum komu fram nýjar kenningar um hreyfiþroska sem hægt er að setja saman í eina kenningu, ,,kerfakenningu” um hreyfiþroska. Það er í raun fátt sem stendur eftir af fyrri hugmyndum manna um hreyfiþroska. Þó er það rétt sem fram kom snemma á 20. öldinni að ungbörn sýna ákveðin ungbarnaviðbrögð og að hreyfiþroskaröðin er fyrirfram ákveðin (eða forrituð) hjá öllum börnum að því leyti að þau ná öll að sitja á fyrsta ári og standa og ganga óstudd kringum eins árs afmælið. Nú er hinsvegar jafnframt talið að hreyfiþroskinn sé háður þroska í mörgum líkamskerfum sem spila saman til að barn taki framförum í hreyfingum. Mikilvægustu kerfin eru heilinn, vöðvar og bein líkamans, hjarta og lungu. Kerfakenningin gerir ráð fyrir að hægt sé að skýra breytingar í hreyfifærni út frá breytileika á sambandi milli undirkerfa. Það er því ekki eingöngu þroski heilans sem veldur þroskabreytingum, heldur þroski allra líffæra. Þegar barn færist frá einu getustigi til annars er það vegna þess að eitt líkamskerfi breytist og hefur áhrif á öll hin. Sambandið milli þessara þátta er stöðugt að þróast og breytast sem hefur áhrif á hreyfiþroska. Framfarir í hreyfigetu verða þegar öll kerfin eru að þroskast og barnið tekur breytingum eftir því. Barnið er stöðugt á hreyfingu og prófar sig áfram til að finna bestu hreyfinguna fyrir hverja athöfn hverju sinni. Á sama tíma er það að stækka, þyngjast og fitudreifing í líkamanum breytist. Það þarf því að læra að stjórna hreyfingum í síbreytilegum líkama. Hreyfiþroski er því að hluta til ,,forritaður” og að hluta til lærður.”

Umhverfisáhrif

Hreyfiþroskinn og vitsmunaþroskinn fara því saman og barnið er virkt frá fæðingu, leitar eftir áreiti og prufar sig áfram. Hreyfiþroskinn er háður því að barnið sé forvitið og vilji kanna heiminn. Vitsmunaþátturinn hvetur það áfram. Samspil umhverfisins og hreyfiþroskans er þar af leiðandi mun meira en áður var talið.

Björg segir að áhrif umhverfisins komi t.d. vel í ljós þegar hreyfiþroski barna víðsvegar um heim sé kannaður. ,,Sem dæmi má nefna að á Jamaica og Bali leggja mæður mikla á áherslu á að börnin læri að sitja og standa og þau geta það mun yngri en hvít börn. Börnin eru ekki hvött til að skríða því það er talið hættulegt og jafnvel niðurlægjandi. Annað dæmi um áhrif umhverfis eru ungbörn Quechua indíána sem búa í Andesfjöllum í Perú. Hjá þeim er allt að 25 gráðu munur á hitastigi dags og nætur. Börnin eru vafin og reyrð í uppréttri stöðu á baki móður til að halda jöfnum hita á þeim. Þau fá færri tækifæri til að hreyfa sig en önnur börn og eru seinni til. Þá eru vísbendingar um að á Indlandi séu ungbörn linari og ekki eins virk í hreyfingum og önnur ungbörn, vegna þess að þar er meiri áhersla lögð á að skapa rólegt umhverfi hjá börnunum með t.d. nuddi, þó sá munur haldist ekki áfram fram eftir aldri. Loks má nefna sem dæmi um áhrif umhverfis á hreyfingar ungbarna að hér á landi hefur skrið barna breyst umtalsvert á undanförnum árum vegna breytinga á gólfum. Parketskrið nú mun algengara en áður en þá renna börnin sér eftir gólfinu með annan fótinn á undan en hinn á eftir. Þegar teppi voru algengari skriðu flest börnin hins vegar með víxlhreyfingum.

Næringarástand og mataræði er annar umhverfisþáttur sem hefur bein eða óbein áhrif á hreyfiþroska. Nokkrar rannsóknir, víðsvegar um heim, á börnum sem líða næringarskort sýna að þau eru seinni til í hreyfiþroska en börn sem eru vel nærð.

Miðað við aðra kynþætti er hraði á hreyfiþroska hvítra ungbarna í meðallagi Þau hafa þó verið sá hópur sem miðað er við í prófum því flestar lýsingar á hreyfiþroska og hreyfiþroskapróf eru þróuð út frá rannsóknum á hvítum börnum. Hér á landi er þetta viðmið einnig notað þegar hreyfiþroski barna er kannaður.”

Áhrif foreldra

Björg segir að foreldrar geti haft mikil áhrif á hreyfingar barna sinna frá fæðingu. ,,Það er mikilvægt að bjóða barninu upp fjölbreytt umhverfi og leyfa því að dunda sér á gólfinu. Þá er ungbarnasund gott fyrir börnin og nudd örvar skynjun og getur haft óbein áhrif á hreyfigetu. Nú eru svokallaðir ungbarnastólar algengir en þó þeir geti verið mjög þægilegir gera þeir ekkert fyrir hreyfiþroska barnsins.” Hún segir að göngugrindur og hoppurólur séu ágætar í hófi en þær komi aldrei í stað þess að leyfa barninu að spreyta sig. ,,Tækin eru ágæt fyrir foreldra til að fá frið en eru til lítils annars gagns. Sumar rannsóknir sýna að börn sem eru mikið í þessum tækjum læri síðar að sitja, skríða og standa en þau sem eru ekki sett í tækin.” Björg hefur fengið örfá börn til sín með flatan hnakka eftir að þau hafa verið látin liggja of mikið á bakinu. ,,Nú er m& aelig;lt með því að ungbörn sofi á hlið eða baki en ekki á maganum. Sumir foreldrar hafa þá verið hræddir við að setja börnin á magann vegna þessa. Það er þó óhætt að láta börnin liggja á maganum smá stund í einu nokkrum sinnum yfir daginn meðan þau eru vakandi og lengja tímann síðan smám saman. Börn koma kreppt í heiminn og það tekur þau um ár að rétta alveg úr sér. Ef þau fá að liggja annað slagið á maganum eru þau fljótari að styrkjast og rétta úr sér.” Björg segir að ungbörn sem eru að læra ákveðna nýja hreyfingu virðist ekki þurfa aðra örvun en ánægjuna og áskorunina við að framkvæma hreyfinguna. ,,Þau hafa innbyggðan hvata því meðan þau eru að ná tökum á hreyfingunni endurtaka þau hana í sífellu þar til þau ná henni. Þau hafa áhuga meðan þau eru að fullkomna hreyfinguna en síðan hætta þau endurtekningunum. Við sjáum þetta t.d. hjá börnum sem eru að standa upp við borð. Þau standa upp í sífellu þar til þau hafa náð því. Það er mikilvægt að trufla börnin ekki í þessu ferli því þau eru að æfa sig. Hjá mjög ungum börnum er þessi innbyggði hvati mest áberandi á sviði hreyfinga. Hann er þó áfram fyrir hendi þegar þau eldast og þá finna þau áskorun í að leysa verkefni sem lífið býður upp á, bæði á sviði vitsmuna- og hreyfinga.” Hún segir að þetta sé lítið rannsakað en mjög forvitnilegt. ,,Enda þótt þekking okkar á hreyfiþroska barna hafi tekið stökkbreytingum síðustu ár eru fjölmörg svið enn eru ókönnuð,” segir Björg að lokum.

Þessi grein birtist áður í tímaritinu Uppeldi