Hringja í Neyðarlínuna 1-1-2

Ef þörf er á neyðaraðstoð skaltu hringja í Neyðarlínuna 1-1-2. Ef fleiri eru á staðnum skaltu strax biðja einhvern að hringja eftir aðstoð. Ef þú ert einn á slysstað skaltu veita neyðaraðstoð áður en þú hringir.

Ekki hringja í lækni, sjúkrahús, vin, ættingja eða nágranna áður en þú hringir í Neyðarlínuna. Það er tímasóun.

Sé ekki um neyðartilvik að ræða má hringja í lækni eða hjúkrunarfræðing t.d. á næstu heilsugæslustöð og fá ráðleggingar. En leiki minnsti vafi á því hvort um neyðartilvik sé að ræða skal hringja í Neyðarlínuna 112.

Hvað gerirðu?
Vertu reiðubúin(n) að veita neyðarsímverði eftirfarandi upplýsingar:
1. Hvað gerðist. Lýstu atvikinu og aðstæðum, til dæmis: „Maðurinn minn datt úr stiga og liggur hreyfingarlaus“.
2. Hvar slysið varð. Gefðu upp nákvæma staðsetningu, heimilisfang, kennileiti á leiðinni og hvort sá slasaði/veiki er til dæmis á fyrstu hæð eða í kjallara. Góðar upplýsingar stuðla að því að hjálp berist sem fyrst. Neyðarlínan er með búnað sem getur rakið öll símtöl.
3. Hver er slasaður eða sjúkur og hvert ástand hans er, til dæmis: „Það blæðir úr höfðinu“. Greindu frá því og hvers konar skyndihjálp þú hefur veitt, til dæmis eins og að þrýsta þar sem blæðir. Neyðarsímvörður Neyðarlínunnar getur gefið upplýsingar um rétt viðbrögð.
4. Hversu margir lentu í slysinu og virðast slasaðir.

Ekki leggja á neyðarsímvörðinn nema hann biðji þig um það.

Gott er að hafa miða með neyðarnúmerinu 1-1-2 sem víðast eða á sérhverju símatæki. Önnur neyðarnúmer eru skráð á fremstu síðu símaskrárinnar. Dreifikerfi símans er mjög útbreitt.  

Athugið  þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands