Hugsaðu jákvætt það er léttara

1. Geðorð: Hugsaðu jákvætt það er léttara.

Geðorð Geðræktar eru byggð á því sem einkennir farsælt fólk og eru þannig ábendingar til þeirra sem sækjast eftir velgengni og vellíðan í lífinu. Fyrsta geðorðið “Hugsaðu jákvætt” er undirstaða vellíðunar því án jákvæðra hugsana er engin vellíðan.

Mikilvægt er að átta sig á hvað hugsanir okkar hafa mikil áhrif á líðan okkar. Það er ekki hægt að upplifa einhverja tilfinningu án þess að til komi hugsun sem vekur hana. Þannig er ekki hægt að finna til sorgar án þess að hugsa um eitthvað sorglegt og það sama á við um aðrar tilfinningar eins og reiði, kvíða eða gleði. Vanlíðan tengist oft neikvæðum hugsunum. Það getur verið hjálplegt að gera sér grein fyrir því að það eru hugsanirnar sem eru neikvæðar en ekki öll tilveran. Með jákvæðari sýn á lífið reynist auðveldara að takast á við vandamál sem upp koma og vellíðan eykst.

Það er ekki hægt að komast hjá því að hugsa neikvæðar hugsanir inn á milli en það er hægt að stjórna því hvað þær hafa mikil áhrif. Hægt er að venja sig á að ýta neikvæðum hugsunum til hliðar og kalla fram jákvæðar hugsanir í staðinn. Þetta getur þó verið mis auðvelt. Kjöraðstæður eru í afslöppun, þegar ekki þarf að hugsa um neitt annað á sama tíma. Þess vegna er mikilvægt að gefa sér tíma til að slaka á af og til. Um leið og eitthvað annað sækir á hugann verður þetta erfiðara.

Þeir sem eru undir miklu álagi eiga oft erfitt með að kalla fram jákvæðar hugsanir. Með hjálp mynda frá jákvæðum atburðum, uppörvandi tónlist eða bréfa getur þetta þó orðið auðveldara. Það er mikilvægt fyrir hvern og einn að vera meðvitaður um hvað kallar fram jákvæðar hugsanir hjá honum og þannig hvað veiti honum vellíðan. Gott er að nota þetta markvisst og grípa til þess þegar vanliðan færist yfir. Þannig er hægt að taka ábyrgð á eigin líðan og gera sér grein fyrir að enginn er fórnarlamb tilfinninga sinna. Flestir hafa val um að hugsa um eitthvað annað hverju sinni og þar með upplifa aðrar tilfinningar.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Verkefnastjóri Geðræktar

Landlæknisembættið – Heilsan í brennidepli