Hvað er innkirtlakerfi?

Innkirtlakerfi er eitt af líffærakerfum mannslíkamans. Það samanstendur af svokölluðum innkirtlum (e. endocrine glands) en það eru kirtlar sem seyta afurðum sínum út í millifrumuvökva fyrir utan þá og þaðan flæða þær í blóðrásina. Opnir kirtlar eða útkirtlar (e. exocrine glands) seyta sínum afurðum aftur á móti út í rásir sem frá þeim liggja til líkamshola eða á yfirborð líkamans.

Helstu innkirtlar eru heiladingull, heilaköngull, skjaldkirtill, kalkkirtlar, nýrnahettur og týmus (hóstarkirtill). Ennfremur er að finna innkirtilvef í sumum líffærum sem tilheyra öðrum líffærakerfum. Í þessum flokki eru undirstúka, briskirtill, eggjastokkar, eistu, nýru, magi, lifur, smáþarmar, húð og legkaka.

Afurðir innkirtla nefnast hormón en þau má skilgreina sem lífræn boðefni sem berast með blóðrásinni um líkamann.

Innkirtlakerfið vinnur með taugakerfinu við að samhæfa störf allra annarra líffærakerfa líkamans. Taugakerfið stjórnar samvægi líkamans með taugaboðum sem leiða til losunar taugaboðefna úr taugungum sem ýmist örva eða letja aðra taugunga, vöðvaþræði eða kirtilfrumur. Boðefni innkirtlakerfisins, hormónin, berast aftur á móti í blóðrás og með henni um allan líkamann. Aðeins tilteknar frumur í líkamanum taka þó mark á hormónunum og verða fyrir áhrifum af þeim. Þær kallast markfrumur (e. target cells) hormónsins sem um er að ræða.

Í raun mætti segja að taugakerfið og innkirtlakerfið séu tengd í eitt ofurkerfi. Taugaboð frá tilteknum hlutum taugakerfisins geta ýmist örvað eða hamlað virkni innkirtla og þannig haft áhrif á starfsemi innkirtlakerfisins. Hormón þess geta aftur á móti vakið eða hindrað taugaboð. Ennfremur má finna sameindir eins og noradrenalín, sem virka sem hormón sums staðar en taugaboðefni annars staðar.

Taugakerfið leiðir til þess að vöðvar dragast saman og kirtlar seyta meiru eða minna af afurðum sínum. Innkirtlakerfið hefur áhrif á efnaskiptin, stýrir vexti og þroskun og stjórnar æxlunarferlum. Þannig hjálpar það ekki eingöngu við að stjórna starfsemi sléttra vöðva og hjartavöðvans ásamt virkni sumra kirtla, heldur hefur það einnig áhrif á nánast alla aðra vefi í líkamanum.

Hraði boða frá þessum tveimur kerfum er nokkuð mismunandi. Áhrif taugaboða koma oftast fram innan nokkurra þúsundustu úr sekúndu. Svör við sumum hormónaboðum koma fram innan nokkurra sekúndna en önnur koma ekki fram fyrr en eftir nokkra klukkutíma eða lengri tíma. Þar að auki vara áhrif hormóna oftast mun lengur en áhrif taugaboða.

Heimild:Gerard J. Tortora (1997): Introduction to the Human Body – The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.

Þessi grein birtist fyrst á Vísindavef HÍ

Höfundur greinar