Hvað eru kolvetni?

Kolvetni eru flokkur lífrænna efnasambanda kolefnis, súrefnis og vetnis og eru mikilvægur hluti fæðunnar.

Mismunandi kolvetni í fæðu

Mikilvægustu kolvetnin í fæðu eru sterkja (mjölvi) og trefjar sem teljast til fjölsykra og sykrur. Sykrur skiptast í einsykrur, tvísykrur og fásykrur.

Mikilvægustu einsykrur frá sjónarhóli næringarfræðinnar eru þrúgusykur (glúkósi) og ávaxtasykur (frúktósi) sem er að finna í ýmsum ávöxtum eins og nafnið gefur til kynna.

Einsykrurnar glúkósi, galaktósi og frúktósi eru þau form kolvetna sem líkaminn tekur upp í þörmunum. Frúktósa og galaktósa er síðan breytt í glúkósa í líkamanum. Glúkósi er mikilvægur orkugjafi í líkamanum.

Tvísykrur eru kolvetni mynduð af tveim einsykrum. Mikilvægustu tvísykrurnar frá sjónarhóli næringarfræðinnar eru strásykur (súkrósi) og mjólkursykur (laktósi).

Fjölsykrur eru þau form kolvetnis sem ættu að skipa stærstan sess í daglegu fæði þeirra sem vilja leggja áherslu á hollustu.

Mikilvægasta fjölsykran er sterkja (mjölvi), gerður úr glúkósasameindum sem mynda langar keðjur. Mjölva er að finna í ýmsum jurtum.

Til fjölsykra teljast einnig trefjar. Með trefjum er átt við ómeltanlegar fjölsykrur. Hluti trefja gerjast þó af bakteríum í þörmum. Hæfileg trefjaneysla er nauðsynleg fyrir heilbrigði meltingarvegar.

Glýkógen (dýramjölvi) er önnur fjölsykra, áþekk plöntumjölva að uppbyggingu. Glýkogen safnast í lifur og vöðva þar sem það myndar orkuforða líkamans. Þegar blóðsykur fellur losnar dálítið glýkógen út í blóðið í formi glúkósa og tryggir að líkaminn hafi aðgang að nægilegri orku í blóðrásinni.

Við hækkun blóðsykurs fer dálítið af glúkósa blóðsins aftur á móti til geymslu sem glýkógen.

Tvísykrur og meltanlegar fjölsykrur verða að klofna niður í einsykrur áður en þarmarnir taka þær upp.

Helstu kolvetnagjafar

Í fæði flestra Íslendinga koma 65% kolvetna og 97% trefja úr kornvörum, grænmeti, kartöflum og ávöxtum. 20% af kolvetnunum fást úr sykurvörum (sælgæti, sykri úr matvörum, gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum). Öfugt við það sem segja má um grænmeti og ávexti eru engar trefjar í þessum vörum og afar lítið af vítamínum og steinefnum.

Niðurbrot tví- og fjölsykra

Niðurbrot kolvetna hefst í munninum fyrir tilstilli ákveðinna ensíma (amýlasa) í munnvatninu. Magasýrurnar taka síðan þátt í að kljúfa þessi efni enn frekar, en endanlegt niðurbrot verður ekki fyrr en þau hafa farið um skeifugörnina og þá fyrir áhrif annarra amýlasa frá briskirtlinum.

Tvísykrurnar klofna í sjálfri þarmaslímhimnunni og eru sérstök ensím þar að verki. Sem dæmi um slíkt ensím má nefna laktasa, sem klýfur niður mjólkursykur. Ef þetta ensím er ekki fyrir hendi, á manneskjan erfitt með að þola mjólk og mjólkurafurðir vegna þess að í þeim er laktósi (mjólkursykur).

Upptaka kolvetna

Frá yfirborði þarmafrumnanna fara kolvetnin áfram inn í líkamsstarfsemina sem einsykrur. Þar eru þau ýmist óbundin (blóðsykur) eða sem orkuforði (glýkógen) í lifur og vöðvum.

 

Greinin var uppfærð 20.apríl 2020 af Láru Kristínu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar