Hver á að vera með við fæðinguna?

Hver á að vera með við fæðinguna?

Í flestum tilvikum er hinn verðandi faðir til staðar við fæðinguna. Þannig hefur það þó aðeins verið seinustu 25 – 30 árin. Áður fyrr fæddu flestar konur heima, þar sem nánustu skyldmenni voru með, þó oftast konur. En fyrir konur sem fæddu á sjúkrahúsi var fæðingin einmanaleg upplifun í framandi umhverfi í hópi ókunnugra. Við þær aðstæður gat konan átt erfitt með að öðlast þá ró og það öryggi sem nauðsynlegt er til þess að geta slakað vel á milli hríða og einbeita sér að fæðingunni.

Hvernig velur maður hver á að koma með?

Fæðing er mjög persónuleg og náin upplifun. Fæðing er einnig oft langur og erfiður ferill, þar sem möguleikar þurfa að vera til að geta stytt sér stundir, vera í ró og geta einbeitt sér.

Í byrjun fæðingar getur konan verið virk og haft þörf fyrir félagsskap, en eftir því sem að hríðirnar verða kröftugri þarf konan ró til að einbeita sér og þá þarf að vera kyrrð í kringum hana og þess ekki krafist að hún taki þátt í samræðum eða þurfi að taka ákvarðanir.

Ef til vill langar konuna til að hlusta á rólega tónlist eða vera nudduð, ef til vill langar hana aðeins til að einhver henni nákominn sé til staðar, einstaklingur sem hún ber traust til og sem hún getur verið í þögulli samveru með.

Hvern á maður að velja?

Sá einstaklingur sem er með í fæðingunni verður að vera manneskja sem hin fæðandi kona ber fullt traust til og finnst hún geta komið eðlilega fram við, jafnvel þótt hún missi á sér stjórn, láti viðkvæma hluti í ljós, geti sýnt hegðun sem kemur henni sjálfri á óvart eða kasti allt í einu upp.

Þetta þarf vera einstaklingur sem er hægt að ná sambandi við þegar konan hefur þörf fyrir það og getur komið á staðinn fljótt, annað hvort vegna þess að fæðingin er byrjuð eða af því að konuna kvíðir fyrir því að vera ein.

Aðalatriðið er að konunni líði vel með þessari manneskju og geti treyst henni til að styðja sig og aðstoða við að tjá óskir sínar til fæðingarinnar – hefur jafnvel útbúið með henni óskalistann.

Hve margir eiga að vera með?

Það er ákvörðun konunnar, eða parsins, hvort að fleiri eigi að vera til staðar. Þegar faðirinn er til staðar er það réttast að þetta sé manneskja sem faðirinn er líka sáttur við. Ef fylgdarfólkinu líkar ekki við hvert annað verður andrúmsloftið þvingað og það getur hindrað að konan nái þeirri rósemi sem hún þarf til að fæðingin gangi vel. Ennfremur verður að hafa í huga að þeir sem koma með í fæðinguna eru ekki þar sem áhorfendur heldur til að styðja konuna í fæðingunni.