HVÍL – aðferðin

HVÍL er skammstöfun fyrir þá skyndihjálp sem veita má vegna vöðvameiðsla: Hvíld, Vafningi, Ís og Lyftu. Fyrstu 2-3 sólarhringana eftir slík meiðsl má gera margt til að draga úr og jafnvel fyrirbyggja sársauka og verki. Beita má HVÍL-aðferðinni á öll meiðsl á beinum, liðamótum og vöðvum.

H = Hvíld
Sár gróa fyrr í hvíld. Með hvíld er átt við að hlífa skaddaða líkamshlutanum. Sérhver hreyfing eykur blóðflæðið til viðkomandi líkamshluta og það getur valdið aukinni bólgu. Séu meiðslin á fótunum má nota hækjur.

V = Vafningur
Það getur hjálpað til að draga úr bólgumyndun á áverkastaðnum að vefja hann. Vafningur hindrar að það teygist á húð og öðrum vefjum. Til að hefta blæðingu undir húðinni er gott að vefja áverkastaðinn með teygjubindi, sérstaklega fætur, ökkla, hné, læri, hendur og olnboga. Fylla skal dældir, til dæmis með sokk eða þvottapoka, áður en teygjubindið er sett á.
Teygjubindi eru af ýmsum stærðum allt eftir því fyrir hvaða líkamshluta þau eru gerð.
• 4 cm bindi eru notuð á úlnliði og hendur
• 6 og 8 cm bindi eru notuð á ökkla, olnboga og handleggi
• 10 cm bindi eru notuð á hné og fætur

Byrja skal á því að vefja vel fyrir neðan áverkastaðinn og vefja upp á við. Gott er að vefja fyrst jafnt og nokkuð þétt en síðan smám saman lausar eftir því sem ofar dregur þar til komið er upp fyrir áverkastaðinn.

Vafningur er eitt mikilvægasta skrefið í því að fyrirbyggja bólgu. Æskilegt er að hafa bindi vafið um áverkastaðinn í 18-24 tíma (nema notaður sé kaldur bakstur). Losa skal, en ekki fjarlægja, teygjubindið yfir nóttina.

Ef meiðslin eru á ökkla má leggja umbúðir undir teygjubandið við ökklakúluna. Vefja skal teygjubindið þéttast næst tánum en lausast um kálfann. Vefja þarf nógu fast til að draga úr bólgu en ekki svo að það hindri blóðrás.

Þegar um mar eða tognun er að ræða er gott að hafa umbúðir á milli áverkans og teygjubindisins, til að fá smá þrýsting á áverkasvæðið.

Í = Ís
Gott er að leggja íspoka við áverkasvæðið í 20 mínútur á 2-3 tíma fresti fyrsta sólarhringinn. Húð sem kæld er gengur í gegnum fjögur stig: Kulda, sviða, verk og dofa. Þegar húðin er orðin dofin, venjulega eftir 20-30 mínútur, þarf að fjarlægja íspokann. Síðan skal vefja áverkasvæðið með teygjubindi og jafnframt lyfta útlimnum.

Við kulda herpast æðar saman og þá dregur úr bólgu auk þess sem kælingin slær á sársauka og vöðvaherping. Kæla á áverkastaðinn strax því batatími er skemmri ef bólga verður lítil. Hiti hefur þveröfug áhrif á nýja áverka því hann eykur verulega bæði bólgu og sársauka.

Nota má aðra hvora eftirtalinna aðferða við að kæla áverka:
• Að setja mulinn ís (eða mola) í tvöfaldan plastpoka, hitapoka eða blautt handklæði. Leggja á blautan dúk yfir áverkann og íspoka þar ofan á og halda honum svo á sínum stað með teygjubindi. Íspoki lagar sig að útlínum líkamans.
• Að nota kælipoka; innsiglaðan poka með tveimur efnapökkum í. Þegar pokinn er kreistur verður í honum efnahvarf sem hefur kælingaráhrif. Þótt slíkir pokar séu ekki jafn áhrifaríkir og venjulegir íspokar er þægilegt að nota þá ef ís er ekki við höndina. Kælipokar glata virkni sinni mjög fljótt og einungis er hægt að nota þá einu sinni.

Varúð: Ekki

• Nota íspoka lengur en 20 mínútur í senn. Það gæti valdið kali eða taugaskemmdum.
• Leggja íspoka beint á húð.
• Nota íspoka ef hinn slasaði er með blóðrásarsjúkdóm, Raynaud's-sjúkdóm (herping í æðum útlima sem hindrar blóðrásina), er óvenju kulvís eða hefur einhvern tíma kalið.
• Hætta að nota íspokann of snemma. Það eru algeng mistök að hita áverkann of snemma en það veldur bæði bólgu og sársauka.

L = Lyfta
Þyngdaraflið ræður miklu um bólgumyndun. Það dregur blóð og aðra vessa niður í neðri hluta líkamans. Þegar vökvi hefur borist til handa og fóta getur hann ekkert annað farið og því er þessum líkamshlutum hættast við að bólgna. Það að lyfta áverkasvæðinu, auk þess að nota ís og teygjubindi, takmarkar blóðstreymið og þar með bæði blæðingu og bólgumyndun.

Það er einfalt að lyfta sködduðum fæti eða handlegg til að draga úr blæðingu. Hvenær sem þess er kostur er gott að hafa áverkasvæðið ofar hjartastað fyrsta sólarhringinn. Ekki skal þó lyfta útlim, ef grunur leikur á að hann sé brotinn.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands