Islam- Múhameðstrú

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Islam- Múhameðstrú

Islam

Það eru um 1200 milljónir manna sem eru fylgjandi islam (múhameðstrú) í heiminum í dag og er islam því næst fjölmennustu trúarbrögð heims á eftir kristinni trú. Trúin er kennd við spámanninn Múhameð sem fæddist í Mekka, á 6. öld eftir Krist. Trúað er á einn Guð „Allah” sem er arabíska og þýðir Guð og að Múhameð hafi verið síðasti sendiboði Guðs hér á jörðu. Islam þýðir í raun „undirgefni” þannig að sá sem játast islamskri trú er undirgefinn Allah.

Trúræknir múslimar líta á Kóraninn sem heilaga ritningu og fylgja kenningum hans nokkuð bókstaflega. Í honum má finna leiðbeiningar fyrir múslima í mörgum aðstæðum sem upp kunna að koma frá vöggu til grafar. Islam er því ekki bara trúarbrögð heldur einnig stjórnskipulag, lög og reglur. Múslimar telja það heilaga skyldu sína að fylgja nákvæmlega hinum fimm stoðum islams eins og þær koma fram í Kóraninum: Fyrst er það játningin að „enginn er guð nema Allah”. Í öðru lagi verður hver trúaður einstaklingur að fara með bænir fimm sinnum á dag, hvar sem hann er staddur og snúa sér í átt að Mekka á meðan. Þriðja skyldan er fólgin í því að gefa ölmusur. Fjórða er að fasta í níunda mánuði islamska ársins, þ.e. í ramadan mánuðinum, sem reyndar færist aðeins til þar sem einungis eru 354 dagar í árinu samkvæmt tímatali múslima og færast því hátíðisdagar til um 11 daga ár hvert. Fimmta skyldan er síðan að fara í pílagrímsför til Mekka að minnsta kosti einu sinni á ævinni ef heilsa og fjárhagur leyfir.

Islam er upprunnin í Mið-Austurlöndum en teygir sig um Asíuhluta Sovétríkjanna gömlu, vesturhluta Kína, með úthéruðum Indlands, Afríku og víðar. Nokkur munur er því á menningararfleifð múslima eftir því hvaðan þeir koma. Innflytjendum sem játa islam hefur farið ört fjölgandi í Evrópu á síðustu áratugum og er fjöldi múslima á Íslandi um 400 manns.

Helgisiðir

Ætlast er til að múslimar fari með ákveðin bænavers fimm sinnum á dag á ákveðnum tímum dagsins, sem miðast við sólarupprás og sólarlag, þannig að á sumrin líður lengra á milli bænagjörða en á veturna. Fyrir bænagjörðina hreinsa múslimar sig með því að þvo ákveðna líkamshluta, taka sér stöðu á hreinu svæði eða mottu og snúa sér síðan í átt að Mekka, sem er í suð-austur frá Íslandi. Þeir bera sig að með sérstökum hætti á ákveðnum stöðum í bænagjörðinni, ýmist standa þeir, krjúpa eða láta enni snerta jörðina. Einungis mjög veikir sjúklingar eru undanskyldir bænagjörð.

Í lok ramadan mánaðarins er haldin „hátíð föstuslitanna” svo kallaða Eed-ul-Fitr hátíð. Þessi hátíð minnir að nokkru leyti á jól kristinna manna, þar sem skipst er á gjöfum og kortum. Ef þess er nokkur kostur að sjúklingur fari heim til að halda hátíðina er það æskilegt. Eins er æskilegt að halda öllum rannsóknum í lágmarki á þessum tíma.

Engin sakramenti eru í islam. Ekki er framkvæmd „skemmriskírn”, því öll börn múslimskra foreldra fæðast sem múslimar og án syndar. Móðirin gefur barni sínu nafn við fæðingu en faðirinn hvíslar bænarorðum í eyra barnsins, þeim fyrstu sem barnið á að heyra.

Föstudagar eru heilagir í augum múslima.

Lífshættir

Fæðuvenjur
Venjulega halda múslimar fast við fæðuvenjur sínar og lýtur matargerðin ákveðinni hefð. Kóraninn bannar neyslu svínakjöts, svínakjötsafurða svo og blóðríks matar, en þó er í lagi að borða lifur. Þeir kjósa helst jurtafæði nema hægt sé að fá sérstaklega tilreitt kjöt svokallað „halal“ kjöt, sem er kjöt slátrað samkvæmt ákveðinni hefð. Almennt borða múslimar einnig fisk og mjólkurmat. Þeir borða ekki mat sem blandast hefur „bönnuðum” fæðutegundum eins og t.d. skinku.

Múslimar neyta ekki áfengis og borða því ekki rauðvínssósur eða neitt annað sem áfengi er í.

Þeir neyta ekki morgunmatar fyrr en að loknum þvotti og bænagjörð.

Föstur
Öllum múslimum er ætlað að fasta ramadan mánuðinn. Áður en ramadan gengur í garð á hver og einn að ganga frá ágreiningsefnum og öðrum vandamálum svo hann geti gengið inn í mánaðarlanga föstu án þess að vera þjakaður af slíkum vandamálum. Ramadan fastan er sú trúarskylda sem múslimar gæta af mestri kostgæfni. Allir trúræknir menn, að undanskildum sjúklingum, gamalmennum, ungbörnum og barnshafandi konum, eru í algjöru bindindi frá dögun til sólarlags. Þeir mega ekki neyta matar né drykkjar, ekki reykja né hafa kynmök, jafnvel ósæmilegar hugsanir geta gert föstu heils dags ógilda.

Óski sjúklingur eftir því að fasta þýðir það að frá sólarupprás til sólarlags þiggur hann hvorki fasta fæðu, drykk eða lyf um munn, nef, í æð og ekki heldur endaþarmsstíla. Þetta getur skapað erfiðleika varðandi meðferð eins og lyfjagjafir, þar með talið verkjalyfjagjöf. Ef þetta skapar mikinn vanda getur verið hjálplegt að fá aðstoð “Imam” þ.e. leiðtoga múslima hér á landi við að finna ásættanlega lendingu.

Hreinlæti
Áður en bænagjörð hefst skola múslimar nef með því að sjúga upp í það vatn og einnig er munnurinn skolaður. Hendur eru þvegnar upp að olnboga, síðan andlitið, ennið og eyrun sérstaklega og loks fætur upp að ökkla. Þeir neyta ekki morgunmatar fyrr en að lokinni þessari athöfn.

Múslimar þvo sér í kringum þvagrás með rennandi vatni (áhersla er á að vatnið sé rennandi) eftir þvaglát og einnig í kringum endaþarm eftir hægðalosun. Sjúklingur sem ekki getur séð um þetta sjálfur þarf aðstoð, er þá rennandi vatni hellt yfir nárasvæðið.

Þá verða konur að baða sig hátt og lágt í lok blæðinga svo þær geti stundað bænahald samkvæmt Kóraninum.

Hreyfing
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við múslima sem lýtur að hreyfingu, aðrar en þær hreyfingar sem gerðar eru í tengslum við bænargjörð.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Múslimar neyta ekki áfengis.

Reykingar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við múslima sem lýtur að reykingum.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Fjölskyldubönd eru mjög sterk.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Múslimar eru hlynntir hefðbundnum læknismeðferðum. Samkvæmt islam er manneskjan æðst í sköpunarverki Guðs. Því er það skylda manneskjunnar að varðveita lífið.

Orsakir sjúkdóma
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við múslima sem lýtur að orsökum sjúkdóma.

Getnaðarvarnir
Múslimar eru ekki á móti notkun getnaðarvarna.

Fóstureyðingar
Fóstureyðingar eru bannaðar með öllu.

Meðganga
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við múslima sem lýtur að meðgöngu, nema það sem fram kemur undir samskipti.

Líffæraflutningar
Múslimar eru samþykkir líffæraflutningum ef nauðsyn ber til.

Verkjameðferð
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við múslima sem lýtur að verkjameðferð.

Blóðgjafir
Múslimar eru ekki á móti blóðgjöfum.

Krufningar
Múslimar eru mótfallnir krufningu nema sérstakar ástæður liggi að baki, s.s. af réttarlæknisfræðilegum og/eða af mikilvægum læknisfræðilegum ástæðum.

Snerting

Náin snerting tíðkast ekki í samfélagi múslima, sér í lagi snerting einstaklinga af gagnstæðu kyni, nema milli hjóna. Kona upplifir að hún verði „óhrein” sé hún snert af karlmanni öðrum en eiginmanni sínum, þ.m.t. karlkyns lækni, og finnst það niðurlægjandi. Heilbrigðisstarfsfólk ætti að hafa það í huga þegar sýnd er hluttekning að handaband eða faðmlag kann að vera óviðeigandi.

Eftir andlát þvo karlar lík karlmanns og konur lík konu. Ef múslimar eru ekki til staðar er æskilegt að karlar sjái um umönnun við andlát ef karl á í hlut og konur að sama skapi ef um konu er að ræða, ef þess er nokkur kostur. Mikilvægt er að þeir sem sjá um umönnun við andlátið og eru ekki múslimar séu með hanska, því öðrum en múslimum er ekki ætlað að snerta líkið með berum höndum. Hjón mega þvo maka sínum. Konur mega þvo drengjum sem ekki hafa náð kynþroska.

Samskipti

Ein helsta dyggð þeirra sem aðhyllast islam er að gæta velsæmis og sýna hógværð. Er þetta múslimum afar mikilvægt og eru þeir sérstaklega viðkvæmir gagnvart eigin nekt og annarra. Margar múslimakonur hylja nær allan líkama sinn og sumar andlit sitt líka. Þær sem slíkt gera eru líklegri til að vera mikið klæddar á nóttunni en þá er fatnaðurinn öllu lausari. Búast má við að konur kjósi að vera meira klæddar, sem sjúklingar, en venja er. Karlmönnum er uppálagt að hylja líkamshluta sína frá mitti og niður að hnjám. Nekt, jafnvel í viðurvist annarra karlmanna, finnst þeim niðurlægjandi.

Karlar bera gjarnan höfuðfat við bænir og á hátíðum. Sumir eldri karlar kjósa að hafa höfuðfat öllum stundum jafnvel á sjúkrabeði.

Múslimar leggja mikla áherslu á aðskilnað kynjanna og á það einnig við í samskiptum innan heilbrigðiskerfisins, þannig að inngrip og umönnun þurfa helst að vera á höndum einstaklinga af sama kyni, ef því verður mögulega við komið. Æskilegt er því að konur sinni konum og karlar körlum, það eitt og sér getur komið í veg fyrir mörg vandamál.

Fjölskyldan vill gjarnan hugsa um deyjandi ættingja sína heima ef þess er nokkur kostur. Múslimar sýna oftast mikla ögun frammi fyrir eigin dauða og flíka ekki tilfinningum sínum. Hins vegar sýna þeir sorgarviðbrögð á opinskáan hátt með gráti. Sú skylda er á ættingjum og vinum að heimsækja þá sem syrgja og sýna & thorn;eim samhygð.

Rétt er að ráðfæra sig við sjúklinginn eða aðstandendur varðandi tilvísun til annarra sálusorgara en þeirra sem eru múslimar.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Það er næsta víst að sjúklingur sem er múslimi vilji halda fast í daglega bænagjörð sína eins lengi og hann mögulega hefur getu til. Skapa þarf aðstæður svo hann geti stundað þá athöfn. Ef sjúklingur er á fjölbýli þarf að skerma svæði sjúklingsins af svo hann geti sinnt sinni bænaskyldu út af fyrir sig. Ef til vill þarf að aðstoða við að snúa rúmi sjúklingsins eða stól í átt að Mekka áður en bænagjörð hefst, þ.e. í suð-austur. Þá gæti sjúklingur þurft aðstoð við þvott áður en bænargjörð hefst. Sjá hreinlæti.

Æskilegt er að deyjandi sjúklingur sé á einbýli ef því verður við komið. Skapa þarf aðstæður þannig að aðstandendur eða vinir geti dvalið sem mest hjá sjúklingnum.

Gamalt fólk, mikið veikir og deyjandi sjúklingar eru undanþegnir föstu. Sumir kjósa þó að fasta, þó ekki sé í heilan mánuð heldur aðeins í fáeina daga, þar sem múslimar hafa sterkar tilfinningar gagnvart ramadan. Þeir líta gjarnan á föstumánuðinn sem mikilvægan tíma til að ganga frá sínum málum. Ákveði sjúklingurinn að hann vilji eða verði að fasta þarf hann að fá máltíð (og lyf ef það á við) fyrir sólarupprás og aftur eftir sólarlag, ásamt vatnsglasi og skál svo hann geti skolað munninn fyrir bænir.

Bænarorðin „það er engin guð nema Allah” eru fyrstu og síðustu orðin sem múslimi heyrir eða segir. Geti sjúklingur ekki mælt þau sjálfur hvísla ættingjar þeim í eyra þess deyjandi og er þá andliti sjúklings snúi í átt að Mekka, í suð-austur.

Múslimar trúa á líf eftir dauðann og að dauðinn sé einungis tímabundinn aðskilnaður. Trúrækinn múslimi lítur svo á að þjáningin og dauðinn sé að vilja Guðs og að það sé skylda hans að lúta þeim vilja, þó erfitt sé.

Við andlát er augum sjúklingsins lokað og kjálki skorðaður á hefðbundinn hátt. Rétt er úr handleggjum og fótum. Skartgripir fjarlægðir. Líkið er sveipað laki þar til það er þvegið, helst af ættingjum, vinum eða meðlimum úr samfélagi múslima annars af heilbrigðisstarfsfólki af sama kyni og hinn látni. Sjá snerting Búið er um líkið í laki eða það klætt í sérstök líkklæði sem hylja allan líkamann og er það síðan lagt á hægri hlið og þannig lagt í kistu. Að veita aðhlynningu eftir andlát er skylda sérhvers múslima. Að þessu loknu er farið með sérstaka bæn en þess er gætt að ekki sé farið með bænina á staðnum þar sem líkið var þvegið.

Ef sjúklingurinn hefur dáið á sjúkrahúsi getur verið að ættingjar óski eftir að líkið verði flutt heim og skiptast ættingjar og vinir á að vaka yfir kistunni og biðja bænir fyrir sálu þess látna, þar til jarðaför fer fram, sem samkvæmt venju er innan sólarhrings.

Umhverfi

Æskilegt er að deyjandi sjúklingur sé á einbýli ef því verður við komið og að trúartákn annarra trúarbragða séu fjarlægð úr stofunni ef því er að skipta og sjúklingurinn eða aðstandendur hans óska eftir.

Útför og greftrun

Múslimar skipta við útfararstofur. Jarðsett er sem fyrst, helst samdægurs, nema sérstakar aðstæður komi í veg fyrir það. Líkið er lagt á hægri hlið í kistuna og jarðsett þannig að andlitið snúi mót Mekka. Jarðafarir geta farið fram í kirkjum, safnaðarheimilum eða öðrum samkomustöðum og eru þá gerðar viðeigandi ráðstafanir. Samkvæmt islam á ekki að brenna líkið. Sérstakur grafreitur er fyrir múslima í Grafarvogskirkjugarði.

Það er skylda allra múslima að mæta við jarðafarir og bera kistuna smá spöl. Konur eru þó undanskyldar að mæta við jarðafarir og kveðja því hinn látna heimavið.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda