Kaþólska kirkjan

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Kaþólska kirkjan

Roman Catholic

Uppruna kaþólsku kirkjunnar má rekja til þess er Heilagur andi kom yfir lærisveina Jesú á hvítasunnunni og þeir stofnuðu hina kristnu kirkju. Kristnir menn voru sameinaðir fyrstu þrjár aldirnar en þá fór að bera á ágreiningi milli Austurkirkjunnar (grísku rétttrúnaðarkirkjunnar) og Vesturkirkjunnar (rómversk kaþólsku kirkjunnar). Ágreiningur þessi var ekki síst landfræðilegur en einnig var guðfræðilegur ágreiningur er varðaði einstök túlkunaratriði, mismunandi helgigripi, hjónaband presta og notkun latínu við helgihaldið. Fullur aðskilnaður varð milli þessara kirkjudeilda á 11. öld. Síðan klofnaði kaþólska kirkjan á ný á 16. öld er mótmælendur klufu sig úr henni. Á síðustu áratugum hafa allar þessar kirkjudeildir færst nær hver annarri.

Rómversk-kaþólsku kirkjuna er víða að finna. Hún er ríkjandi á Ítalíu, svo og í mörgum öðrum löndum Evrópu svo sem Frakklandi, Spáni, Portúgal, löndum Austur-Evrópu, flestum löndum Suður-Ameríku og víða annars staðar, t.d. í einstaka löndum Asíu eins og á Filippseyjum og í Víetnam. Kaþólska kirkjan hefur alltaf átt ítök á Íslandi. Samfélag kaþólskra hér á landi er um 4000 manns.

Helgisiðir

Barnaskírn og þar með talin skemmriskírn er afar mikilvæg samkvæmt kenningum kirkjunnar. Ef ekki næst í kaþólskan prest áður en barn deyr (eða við fósturlát) má heilbrigðisstarfsmaður ausa barnið vatni og segja orðin; „Ég skíri þig til nafns Föðurins, Sonarins og Heilags Anda“, síðan þarf að hafa samband við kaþólska söfnuðinn.

Sakramenti eru í rómversk-kaþólskum sið m.a. skírn, altarissakramenti, skriftir og sakramenti hinna sjúku. Þeir sem meðtaka sakramentin (altarisgöngu) ættu ekki að neyta fastrar fæðu 15 mínútum áður. Þó er í lagi er að taka lyf og fá sér að drekka. Fasta er ekki nauðsynleg ef um mikið veikan eða deyjandi sjúkling er að ræða, þar sem meðtaka sakramentisins hefur forgang við þær aðstæður.

Trúartákn eru kaþólskum mjög mikilvæg. Sjá Umhverfi.

Lífshættir

Fæðuvenjur
Engar sérstakar reglur er varða fæðuvenjur eru við líði innan kaþólsku kirkjunnar.

Föstur
Kaþólskir menn hafa ákveðnar föstuvenjur. Sumir kaþólikkar borða aldrei kjöt á föstudögum allt árið um kring meðan aðrir neyta ekki kjötmetis á öskudaginn né á föstudögum í páskaföstunni (það er yfir 40 daga tímabil). Þeir sem eru á aldrinum 21-59 ára ættu einungis að borða eina aðalmáltíð og tvær smærri án kjötmetis á páskaföstunni, þó megin áherslan sé á að sleppa kjöti á föstudaginn langa. Sjúklingar eru undanþegnir föstu. Hins vegar ef sjúklingur óskar eftir að fasta þá er það einstaklingsbundið val hans og heilsa sem þá ræður.

Föstuvenjur þeirra sem alist hafa upp í kaþólskri trú í löndum Austur-Evrópu eru líklega meiri og fleiri.

Hreinlæti
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að hreinlæti.

Hreyfing
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að hreyfingu.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að áfengi og öðrum vímuefnum.

Reykingar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að reykingum.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Kirkjan leggur mikið upp úr sterkum fjölskyldutengslum.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Kaþólska kirkjan er samþykk hefðbundnum læknismeðferðum og umönnun sem verndar líf og tekur tillit til vilja sjúklingsins.

Orsakir sjúkdóma
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að orsökum sjúkdóma.

Getnaðarvarnir
Kaþólska kirkjan er á móti getnaðarvörnum.

Fóstureyðingar
Kaþólska kirkjan er á móti fóstureyðingum.

Meðganga
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að meðgöngu.

Líffæraflutningar
Kaþólska kirkjan er ekki á móti líffæraflutningum.

Verkjameðferð
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að verkjameðferð.

Blóðgjafir
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að blóðgjöf.

Krufningar
Kaþólska kirkjan er ekki á móti krufningu liggi samþykki aðstandend a fyrir.

Snerting

Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að snertingu.

Samskipti

Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við kaþólikka sem lýtur að samskiptum.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Engar sérstakar óskir eru varðandi umönnun sjúklinga fram yfir það sem almennt gerist á heilbrigðisstofnunum. Æskilegt er að aðstandendum og nánum vinum sé gert kleyft að vera nærri sjúklingnum er dregur að andláti og jafnvel vaka yfir honum um nætur, ef þess er óskað.

Sjúklingur sem vill skrifta og fá syndaaflausn, svo og meðtaka sakramenti hinna sjúku, þarf að fá að vera í einrúmi með prestinum. Æskilegt er samkvæmt kirkjunni að allir kaþólskir menn meðtaki sakramentin fyrir andlát.

Kaþólskir menn leggja mikið upp úr smurningu sjúkra og deyjandi. Smurning fer þannig fram að prestur ber olíu á enni og hendur sjúklings. Í smurningunni leitar sjúklingurinn heilsu á ný og/eða styrks til að mæta þjáningunni og því sem verða vill. Hafa skal samband við kaþólskan prest ef andlát er yfirvofandi eða strax eftir andlát hafi það borið brátt að. Ekki á að hylja líkamann fyrr en smurning hefur farið fram.

Kaþólskir prestar heimsækja gjarnan trúsystkin sín á sjúkrabeð.

Umhverfi

Trúartákn eru kaþólskum mjög mikilvæg og mörgum sjúklingum þykir gott að hafa talnaband, dýrlingamyndir og krosstákn í umhverfi sínu. Festa má talnabandið við kodda sjúklingsins svo hann nái auðveldlega til þess hafi hann getu til. Sérstaka aðgát skal hafa varðandi umgengni við þessa hluti og gæta þess að þeir týnist ekki, þar sem þeir hafa oft mikið tilfinningalegt gildi.

Útför og greftrun

Allir líkamshlutar eiga að vera jarðsettir eða brenndir á viðurkenndan hátt. Kaþólskir eiga samstarf við útfararstofur varðandi útför, greftrun eða bálför.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda