Klórhexidín til notkunar í tannlækningum

Klórhexidín (Hibitane Dental, Corsodyl) var fyrst notað til almennra lækninga árið 1953 og þá aðallega við sótthreinsun húðarinnar. Lyfið hefur verið notað til tannlækninga síðan 1970.

Verkun

Klórhexidín er áhrifamikið sóttvarnarlyf (anti-septikum) sem hefur eyðandi áhrif bæði á sýkla og sveppi. Það bindur sig við tannflöt, tannsýklu og slímhúð munnsins. Einnig festir lyfið sig við gervigóma. Klórhexidín eyðist hægt (á u.þ.b. 12-16 klst.) úr raufum í tönnum og af slímhúð en þar eiga sýklar auðvelt með að setjast að. Þannig eru áhrif klórhexidíns langvarandi á vöxt og viðgang flestra sýkla og sveppa. Það tefur fyrir sýklumyndun (anti-plakkvirkning) og veldur því að sýklar í munni missa eiginleikana til að festa sig við glerung tannanna. Tennurnar haldast því hreinar svo lengi sem áhrifa klórhexidíns gætir.

Notkun

Notkun á klórhexidíni er fyrst og fremst hugsuð sem skammtímameðferð við þær aðstæður þegar erfitt er að koma hefðbundinni munnhirðu við. Einnig er það notað við sýkingu í slímhúð munnsins. Hefðbundin meðferð er 14 dagar en lengri tími er algengur. Í einstökum tilfellum er klórhexidín notað samfellt, sérstaklega þar sem fullnægjandi munnhirða er ekki möguleg, svo sem hjá þroskaheftum og hreyfihömluðum. Mikilvægt er að nota ekki tannkrem samhliða klórhexidíni. Tannkrem dregur úr verkun klórhexidíns. Ef tennur eru burstaðar með tannkremi þarf að skola það vel í burtu áður en skolað er með klórhexidíni. Mikilvægt er að nota ekki sama tannbursta við burstun með tannkremi og með klórhexidíni.

Viðeigandi notkun á klórhexidíni:

  • Til munnskolunar: Hibitane Dental 0,2%
  • Til tannburstunar eða í plastskeið: Hibitane Dental Gel 1%
  • Við sárum í slímhúð munnsins: Isoton klórhexidín 0,1%

Aukaverkanir

Klórhexidín er rammt á bragðið og litar tennur og slímhúð dökkbrúna ef það er notað lengi. Mislitun á slímhúð hverfur þegar notkun lyfsins er hætt en mislitun á tönnunum þarf tannlæknir eða tannfræðingur að hreinsa. Aukaverkanir eru sjaldgæfar. Klórhexidín getur haft tímabundin truflandi áhrif á bragðskyn, í u.þ.b. ½ til 1 klst. eftir notkun. Einstaku sjúklingar kvarta yfir eymslum í slímhúð samhliða skoluninni. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að þynna blöndunina með vatni, 1:1.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is